*

Menning & listir 8. október 2017

Bókalestur sumarsins

Guðjón Auðunsson forstjóri Reita og Helga Hlín Hákonardóttir í Strategíu sögðu frá sínum bókalestri í sumar.

Höskuldur Marselíusarson

Viðskiptablaðið hafði áhuga á því að heyra hvaða bækur hefðu staðið upp úr hjá áhrifafólki í íslensku samfélagi í sumar og það sem af er ári og hafði það samband við nokkra vel valda aðila.

Nefndu þau Guðjón Auðunsson forstjóri Reita og helga Hlín Hákonardóttir í Strategíu bæði nýjar og eldri bækur, sem voru innbyrðis æði ólíkar, þó að flestar væru þær fræðilegs eðlis, en einnig voru bækur léttari aflestrar nefndar.

Grá og nöturleg saga af æskuslóðum

Þegar Viðskiptablaðið hafði samband við Guðjón Auðunsson, forstjóra Reita, var hann nýkominn úr göngum og réttum í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýlsu, þar sem hann er fæddur og uppalinn.

„Þar gisti ég í gamla bænum á Kornsá, þar sem Agnes Magnúsdóttir var geymd áður en hún var hálshöggvin í Vatnsdalshólum í janúar 1830 fyrir morðið á Natani Ketilssyni,“ segir Guðjón sem nefnir að nokkrar bækur og kvikmynd hafi verið gerð um þennan atburð.

„Náðarstund eftir hina áströlsku Hönnuh Kent er einhver merkilegasta bók sem ég hef lesið, en sagan fjallar í megindráttum um þessa síðustu aftöku á Íslandi. Sagan er frábærlega vel skrifuð, en hafa verður í huga að þetta er skáldsaga, byggð á sögulegum heimildum. Þegar sagan hefst hefur Agnes verið dæmd og bíður þess að vera tekin af lífi.“

Guðjón segir að Agnes hafi verið höfð undir eftirliti á bænum, oft í hlekkjum, hjá hreppstjóranum og konunni hans, Margréti, á meðan þess var beðið að tilkynnt yrði um dagsetningu aftökunnar.

„Þessi saga er grá og nöturleg, en inn í hana blandast sálusorg frá ungum presti, vinskapur við konu hreppstjórans og myndin sem dregin er upp af atburðum er svo skýr að manni finnst maður vera staddur á árinu 1829, hvað þá þegar gist er í húsinu þar sem hún var geymd. Frábær bók sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.“

Guðjón nefnir einnig aðra bók sem nú þegar er komin á náttborðið hjá honum í tengslum við sjö mánaða stjórnendanám sem hann er að hefja á næstunni við IESE-háskólann í Barcelona. „Sú fyrsta sem verður lesin er „Strategy and the Business Landscape“ eftir Pankaj Ghemawat en bækur hans og rit snúast að mestu um alþjóðavæðinguna og hvernig stefnumótun fyrirtækja eigi að taka mið af þróun hennar og alþjóðlegs samkeppnisumhverfis.“

Hér varð svokallað „hrun“

„Mig langar fyrst að nefna bókina The Handbook of Board Governance sem dr. Richard Leblanc ritstýrir,“ segir Helga Hlín Hákonardóttir sem rekur ráðgjafafyrirtækið Strategíu ásamt því að sitja í ýmsum stjórnum, má þar nefna Meniga og VÍS.

„Ég hef fylgst með störfum Richards undanfarin ár en hann er kanadískur kennari, lögfræðingur, fyrirlesari, ráðgjafi og sérfræðingur í störfum stjórna. Hann er einnig eigandi stærstu síðunnar á LinkedIn sem heitir Boards and Advisors þar sem ég hef í gegnum tíðina komist á snoðir um fjölda góðra greina og rannsókna.”

Helga segir bókina mjög yfirgripsmikla, enda hátt í 900 blaðsíður, og hún taki á mörgum fræðilegum og praktískum álitamálum sem snúa að störfum stjórna, sem sé sérstaklega mikilvægt hér á landi vegna þess hve fáorð löggjöfin og samþykktir félaga eru um hlutverk þeirra og ábyrgð.

„Hér varð líka svokallað „hrun“ og rétt að reyna að draga lærdóm af því,“ segir Helga sem segir stjórnir eiga það til að verða of einangraðar. „Það sem mér líkar vel við bókina er hversu praktísk hún er og ég hef nýtt ógrynni af efni úr henni í stjórnarstörfum sem ég sinni persónulega en ekki síður við ráðgjöf.”

Helga segist verða að nefna bókina Tvísaga eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur sem eigi það sammerkt með hinni fyrri að hún afhjúpi þá kreddu að eitthvað þurfi að vera eins og það er því þannig hafi það alltaf verið. „Saga Ásdísar og fjölskyldu hennar er með hreinum ólíkindum og hafði mikil áhrif á mig – fyrir utan hvað ég er ótrúlega stolt af Ásdísi Höllu og móður hennar að segja sögu sína,” segir Helga.

„Það er alveg ljóst að það þarf óvenjulegar manneskjur til að berjast á móti storminum og stíga upp úr fyrirfram dæmdum örlögum. Og fæstir gera það sjálfsagt. Það sem stendur upp úr eftir lesturinn er kerfið. Hversu óstjórnlega stíft og ómannúðlegt það getur verið.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is