*

Menning & listir 25. nóvember 2013

Bókaumfjöllun: Arnaldur heldur lesendum föngnum í Skuggasundi

Arnaldur Indriðason kynnir til sögunnar nýja persónu í 17. bók sinni. Blaðamanni Viðskiptablaðsins sat spenntur yfir bókinni.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Það fer að líða að því að engin verða jólin fyrr en bók eftir Arnald Indriðason er komin út. Jólin komu þetta árið í formi Skuggasunds frá Forlaginu. Þetta er 17. bók Arnaldar, í jafn mörg ár eða síðan Synir duftsins kom út árið 1997. Hér er enginn þreyttur og miðaldra Erlendur Sveinsson að rannsaka mannshvörf og morð með sínar persónulegu flækjur á herðunum. Í staðinn er kominn einstæðingurinn Konráð, lögreglumaður á eftirlaunum sem drekkur rauðvín á kvöldin.

Konráð þessi rannsakar morð á öðrum einstæðingi, sem finnst látinn í íbúð sinni. Frásögnin er á tveimur tímaplönum enda tengist rannsókn Konráðs öðru morði við Þjóðleikhúsið í seinna stríði. Frásögn Arnaldar er trúverðug og færslan frá einum tíma til annars slítur frásögnina ekki úr samhengi.  Þvert á móti heldur Arnaldur athygli lesenda frá fyrstu blaðsíðu.

Þótt Arnaldur sé hér á öðrum miðum en í fyrri bókum er uppbyggingin kunnugleg. Kaflar eru stuttir, síðustu metrar hvers kafla leiða lesanda áfram svo hann leiðist áfram á þann næsta þar til bókin er á enda.

Í hnotskurn: Skuggasund er í stuttu máli með betri bókum Arnaldar Indriðasonar. Þótt persónur séu nýjar af nálinni er lesandinn á kunnuglegum miðum.

Jón Aðalsteinn er blaðamaður á Viðskiptablaðinu