*

Menning & listir 26. nóvember 2013

Bókaumfjöllun: Átakanleg Dísusaga

Nýjasta bók Vigdísar Grímsdóttur fjallar um afleiðingar viðbjóðslegs glæps.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Dísusaga – konan með gulu töskuna, nýjasta skáldsaga Vígdísar Grímsdóttur, fjallar í grófum dráttum um höfundinn. Í bókinni segir frá því þegar Dísa Gríms situr í Norðurfirði á Ströndum með bessaleyfi í vasanum til að skrifa sína fyrstu bók. Þetta er erfitt og átakanlegt verk. Bókin er berorð enda opnar höfundur sig fyrir lesendum. Í ljós kemur tætt manneskja, kona sem glímir við sálrænar afleiðingar viðbjóðslegs glæps gegn henni á barnsaldri.

Bókin er fulllöng en óhefðbundin að því leyti að línulegri frásögn er gefið verðskuldað frí. Til að trufla lesturinn frekar fjallar bókin eiginlega um sjálfa sig og hún sett upp eins og bréf til utanaðkomandi, fyrrverandi ástmanns höfundarins. Eins og til að undirstrika stað og stund og bréfaform bókarinnar eru kaflar merktir með dagsetningum. Innan þessa óhefðbundna ramma glímir söguhetjan og höfundurinn Vigdís við hliðarsjálfið Gríms, einkennilega tvískiptan persónuleika þar sem verndarinn er drottnari, hann er töffarinn sem leiðir áfram bugaða konu sem níðst var á í æsku. 

Án þess að kryfja bókina of mikið til mergjar má segja að Dísusaga sé ekki ósvipuð nútímatónlist; á sama tíma og mann langar til að leggja bókina frá sér og slökkva á ómstríðum fiðlum og óbó er harmurinn svo sláandi og átökin slík að lesandi getur ekki annað en haldið lestrinum áfram.

Í hnotskurn: Dísusaga er lykilverk fyrir aðdáendur Vigdísar Grímsdóttur. Bókin er fantavel skrifuð og heldur lesendanum við efnið þótt einkennilegt sé.

Jón Aðalsteinn er blaðamaður á Viðskiptablaðinu