*

Menning & listir 26. mars 2016

Bókaumfjöllun: Flott endurmat á velgengni

Þriðja miðið eftir Aríönnu Huffington er vel uppbyggð bók studd góðum rökum við pælingum sem lesandi hefur oft heyrt áður.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Margir þekkja Ariönnu Huffington, aðalritstjóri og einn af stofnendum netmiðilsins Huffington Post. Hún Huffington hefur um árabil verið í hópi forystufólks í heiminum og afar áhrifarík í hópi kvenna. Á hana er hlustað.

Á dögunum kom út bókin Þriðja miðið eftir eftir Ariönnu Huffington. Bókin kom út á frummálinu árið 2014 og hefur hún verið lesin víða. Árelía Eydís Guðmundsdóttir sagði svo skemmtilega frá því á kynningu bókarinnar að hún hafi lesið hana spjaldanna á milli og lánað eintak sitt um víðan völl. Aríanna Huffington er orkubolti á ritvellinum, hún hefur á rúmum 40 árum skrifað hvorki meira né minna en 14 bækur að Þriðja miðinu meðtöldu. Þetta hefur hún gert ásamt því að standa í framlínu stjórnmála í fjölda ára, sinna framboðsmálum fyrir þáverandi eiginmann sinn og sínu eigin, og vinna að stofnun netmiðilsins Huffington Post. Þá er öll fjölskyldan eftir, sem virðist hafa setið á hakanum framanaf.

Örmögnun höfundar

Þetta er allt saman heljarinnar vinna. Eitthvað bókstaflega hlýtur að bresta. Huffington lýsir því á mjög flottan hátt í upphafi bókar þegar hún gekk fram af sjálfri sér fyrir að verða níu árum, þann 6. apríl árið 2007. Að morgni dagsins lá hún í blóðpolli á gólfi skrifstofunnar á heimili sínu. Hún hafði fallið á gólfið en rekið höfuðið í skrifborðið, skorist í andliti nálægt auga og brotið kinnbein. Fallið var örmögnun vegna ofþreytu og svefnleysis. Í tvö undangengin ár fyrir fallið hafði Huffington unnið sleitulítið að stofnun Huffington Post. Álagið var ekkert smáræði. Hún segist hafa unnið í 18 klukkustundir á dag alla daga vikunnar við að byggja fyrirtækið upp, útvíkka fjölmiðlaumfjöllunina og fá fjárfesta til að koma að rekstrinum. Árangurinn út á við var magnaður, Huffington Post hefur vaxið og dafnað síðan þetta var.

Öðru máli gegndi um Aríönnu sjálfa. Á sama tíma og netmiðillinn blómstraði og hún komin í fremstu röð áhrifakvenna þá fannst henni þetta ekki vera lífið sem hún hafði óskað sér og fjölskyldu sinni. Velgengni sem einkenndist af því að vinna allan sólarhringinn, svara tölvupóstum daginn út og inn og í fjölskyldufríiunum líka. Arianna segir svo frá því í Þriðja miðinu að það hafi verið út af þessu sem hún hafi ákveðið að skrifa bókina. Að hennar mati er kominn sá tími að fólk þurfi að endurmeta hvað sé velgengni.

Endurmat á velgengni

Heiti bókarinnar vísar einmitt í þetta. Þriðja miðið vísar í koll með þremur fótum sem Aríanna gerir að vísun fyrir lífið. Annar fóta kollsins stendur fyrir peninga en hinn fyrir völd. Þriðji fóturinn er svo velgengni í stóra samhenginu, andleg og félagsleg velgengi - vellíðan, viska, undrun og gjafmildi. Þetta allt saman kallar Aríanna endurmat á velgengni.

Slökkvum á snjalltækjunum

Sítengdur heimur stafrænna tækja er vandamálið, að mati Aríönnu sem í mjög löngu og ítarlegu en skemmtilegu máli lýsir því hvernig sítengd tæki, galopinn tölvupóstur í síma eykur mjög á streitu fólks. Það dregur úr einbeitingu, skemmir svefn og dregur almennt úr lífsgæðum.

Sofum meira

Allt helst þetta í hendur. Við vinnum of mikið, sofum of lítið og borðum illa. Slugsaháttur í heilsumálum dregur fólk í gröfina fyrr en ella og skilar sér í arfaslökum minningargreinum. Notkun minningargreina og eftirmæla um fólk er reyndar frábær leið til áminningar. Enda eiga vafalaust fáir sér þann draum að um það verði sagt í minningargreinum að viðkomandi hafi verið mikið í símanum yfir heimalestri barnanna, unnið mikið, sofið lítið og dáið tiltölulega ungur yfir kjörþyngd.

Aríanna gengur langt í Þriðja miðinu. Hún boðar byltingu í því hvernig lesandinn hugsar um sig. Meiri svefn er ekki aðalmálið. Eða betra mataræði og meiri núvitund. Meira er eitt og sér ekki betra. Til að ná fyllri árangri verður einstaklingurinn að hugsa heildrænt, bæði um sjálfa sig og aðra. Þetta hljómar eins og risastórt skref og þarfnast átaks. Einstaklingar sem ætla að taka sér tak verða að horfast í augu við sjálfa sig eins og áfenginssjúklingar og breyta lífsháttum sínum til hins betra.

Breyttur lífsstíll

Ráð Aríönnu er að fækka stundunum sem fara í að kíkja á símann, svara tölvupósti á tilteknum tíma, vinna í ákveðinn tíma og fara að sofa á skikkanlegum tíma á kvöldin til að tryggja nægilega langan svefn. Þetta er formúla, breyting á lífsháttum sem, að mati Aríönnu, leiða til betra innsæis á tilfinningar sínar og annarra, bætta ákvarðanatöku og þess háttar - allt á sama tíma og manni líður betur.

Við vitum þetta auðvitað - en samt...

Lesendur hafa auðvitað heyrt og lesið boðskap sem þennan oft áður, þessa prédikun um heilsu og þann neikvæða lífsstíl sem vinnuálag hefur leitt af sér. En rökin eru ágæt og síður Aríanna pælingar sínar með heilmiklum tilvísunum í heimildir, allt frá Plató og heimspekingum fyrir hans tíð til nýrri tíma. Á köflum er engu líkara en hún hamri á því að fólk vinnur of mikið, skoðar símann sinn alltof oft, sofi alltof lítið og vanræki konu sína, mann og börn og heimurinn geti orðið svo og svo betri ef farið er eftir ráðleggingunum í Þriðja miðinu.

Heimildamoksturinn er á köflum leiðitamur. En skrifin - þ.e.a.s. þýðingin - rennur mjög vel auk þess sem Aríanna kryddar frásögnina víða með atvikum úr eigin lífi. Það er gott krydd en vandmeðfarið. Ég held sveimérþá að ekki hafi ég séð jafn góð persónuleg skrif og í bestu bókum Michael Lewis og í Bringing Down the Banking System eftir Guðrúnu Johnsen, sem var afspyrnugóð.

Púkinn á öxlinni

Auðvitað má gagnrýna sjónarhorn Aríönnu. Sú augljósasta snýr að framanum, þ.e. að segja pælingunni hvort sá sem hefur lífsstefnu Þriðja miðsins að leiðarljósi komist til áhrifa og valda.

Púkinn á öxlinni segir auðvitað að svo sé ekki. Mikil vinna og svefnlausar nætur skili meiri árangri en sú sem felur í sér að sofa vel og lengi, skoða og svara tölvupósti á ákveðnum tíma í stað þess gera það undir eins og þar fram eftir götunum. Hefði Aríanna Huffington náð þangað sem hún er í dag og koma m.a. Huffington Post á koppinn ef hún hefði ekki lagt allt það á sig sem varð til þess að hún féll í yfirlið og vaknaði í blóðpolli á vordögum 2007?

Aríanna svarar þessari gagnrýni púkans á öxlinni með fínum rökum. Svefnleysi, þreyta og streita skili sér í verri og ómarkvissari vinnu en sú sem sá útsofni skilar auk þess sem sá síðartaldi skipuleggur vinnulag sitt mun betur en sá ósofni. Þegar við bætist meiri vellíðan, bæði andleg og líkamleg, verður árangurinn enn betri.

Í hnotskurn

Þriðja miðið eftir Aríönnu Huffington er vel uppbyggð bók studd góðum rökum við pælingum sem lesandi hefur oft heyrt áður. Niðurstaðan kemur ekki á óvart. Þýðing Einars Arnar Stefánssonar rennur vel og textinn er góður. Persónulegar tilvísanir gera fína bók enn betri. Þriðja miðið er ómissandi bók fyrir þá sem vilja endurmeta velgengni og taka upp heilbrigðari lífsstíl.