*

Menning & listir 19. júní 2014

Bókaumfjöllun: Guðlastarinn sem missti fótanna

Úlfar Þormóðsson hefur gefið út bók um andlega pínu sem hann lenti í á sjötugsaldri.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Það hlýtur að vera mikið áfall fyrir mann, reynslubolta á ritvellinum við sjötugt, að útgefandi hafni frá honum handriti, það sé hreinlega ekki nógu gott. Þetta hlýtur að vera áfall, ekki bara pínulítið heldur beinlínis kippa fótunum undan manni af þessu kalíberi. 

Um nákvæmlega þetta fjallar bók Úlfars Þormóðssonar, Uggur, sem er nýkomin út. Úlfar er með þekktari pennum landsins og seint hægt að segja að hann sé einn af þeim sem lítið hefur fyrir farið enda enginn dæmdur fyrir guðlast fyrir skrif sín hér - annar en Úlfar. Bækur Úlfars hafa í gegnum tíðina vakið talsverða athygli, ekki síst bækurnar um Tyrkjaránið og síðustu ár um foreldra hans. 

Nú þekki ég lítið sem ekkert til Úlfars þótt við séum náskyldir annað en ég hef heyrt um hann og geri því ráð fyrir að það sem hann skrifar um í bókinni megi líta á sem sjálfsævisöguleg, þ.e. raunveruleg og eigi sér stoð í veruleikanum. Það skiptir sosum engu fyrir samhengið: Úlfar byggir upp trúverðugan heim í kringum vandræði sín og þá sálrænu raun sem hann lendir í þegar handriti hans er hafnað. Maður hreinlega finnur til með honum. 

Í hnotskurn: Bókin Uggur er ekki löng, 157 blaðsíður og skiptist niður í 35 kafla ef inngangur og eftirmáli eru teknir með. Skemmtilegheit, andleg pína og togstreita og glíma Úlfs, sem fagnar sjötugsafmæli í dag, skín í gegn og leiðir lesandann áfram í vel læsilegri bók. 

Jón Aðalsteinn er blaðamaður á Viðskiptablaðinu.

Stikkorð: Úlfar Þormóðsson  • Uggur