*

Menning & listir 12. mars 2014

Bókaumfjöllun: Hljóðin í nóttinni

Sagan af stúlkunni í bókinni Hljóðin í nóttinni á erindi við alla. Frásögnin afhjúpar óhugnað.

Hljóðin í nóttinni, minningasaga, eftir Björgu Guðrún Gísladóttur er áhrifamikil og átakanleg frásögn en hún er jafnframt saga sigurvegara sem sýnir ótrúlega seiglu og baráttuþrek við að brjótast áfram til að skapa sér og sínum gott líf.

Það er erfitt að leggja bókina frá sér, frásögnin rennur léttilega fram, lýsingarnar eru skýrar og litríkar. Lestur bókarinnar kemur róti á tilfinningarnar. Lesandinn kemst ekki hjá því að finna  fyrir djúpri samúð með litlu stúlkunni sem elst upp við hörmulegar aðstæður sem einkennast af fátækt, heimilisofbeldi og kynferðislegri misnotkun. Reiðin kraumar og beinist að öllum sem hefðu átt að vernda hana en brugðust. Þeim stöðum sem jafnan er litið á sem griðastaði, heimili og skóla, er lýst sem helvíti. Fólkið sem átti að hlúa að henni og hvetja, foreldrar og kennarar, kvöldu hana og niðurlægðu.

Við lestur bókarinnar var mér ofarlega í huga  hvernig  það mætti vera að á sama tíma og ég var unglingur í Reykjavík, á 7. áratug 20. aldar, vernduð af foreldrum og stórum frændgarði var farið svona hörmulega með litla stúlku? En saga hennar er um leið saga allt of margra og hún á erindi við alla því við lesturinn fáum við innsýn í kvöl sem erfitt er að gera sér grein fyrir ef aðeins er horft utan frá. Frásögnin afhjúpar óhugnað sem lengst af hefur verið flestum hulinn í skugga þöggunar og meðvirkni með gerendum. Sagan minnir óþægilega á hversu fordómar og sjálfumgleði birgja mönnum sýn á erfiðleika þeirra sem eiga um sárt að binda. 

Ingveldur Sveinbjörnsdóttir