*

Menning & listir 26. ágúst 2014

Bókaumfjöllun: Hvernig skal njóta tedrykkju

Eigendur Tefélagsins hafa gefið út bók sem inniheldur áhugaverðan fróðleik um hinn ævaforna drykk.

Sæunn Gísladóttir

Tebókin er ný bók tileinkuð tei skrifuð af þeim Árna Zophoniassyni og Ingibjörgu J. Friðbertsdóttur, eigendum Tefélagsins, áskriftarklúbbs sem sendir félögum mánaðarlega nýtt te.

Í upphafi bókarinnar er aðeins fjallað um tefélagið en annars er bókin sjálfstæð umfjöllun um te og tedrykkju. Bókin er gott yfirlit yfir ólíkar tegundir af tei, hvernig skal útbúa hið besta te og tesiði í fjölmörgum löndum. Mælt er með að hafa tebolla við hönd við lestur bókarinnar. Í henni er finna ýmsan fróðleik, meðal annars er útskýrt hvers vegna laust te er oftast betra en te í pokum, og hvers vegna er best að nota nýsoðið vatn auk þess er greint frá tedrykkju á Íslandi sem kemur í ljós að er ævarforn. Bókin er ansi fljótlæs, ekki er kafað mjög djúpt í hina ævafornu sögu tes, enda er bókin ekki nema rúmlega 50 síður að lengd.

Bókin er skemmtilega sett upp, hver opna er með fróðleik um te sem myndskreytt er með teslettum og ljósmynd af tebollum og tejurtum. Ljósmyndirnar eru flestar eftir Kristinn Magnússon og eru sérlega fallegar. 

Í hnotskurn: Tebókin er stutt og falleg gjafabók, 53 blaðsíður og skiptist niður í 22 kafla ef inngangur og eftirmáli eru teknir með. Hún er skrautlega sett upp með áhugaverðum fróðleik um uppruna og framleiðslu tes og er fínasta gjöf fyrir te unnendur. 

Sæunn Gísladóttir er blaðamaður á Viðskiptablaðinu.

Stikkorð: Bækur  • Tefélagið  • Tebókin