*

Menning & listir 1. júlí 2015

Bókaumfjöllun: Konan í lestinni

Konan í lestinni er auðlesin spennusaga sem er tilvalin í sumarfríið.

Sæunn Gísladóttir

Konan í lestinni eftir Paulu Hawkins hefur farið sigurför um heiminn og setur nú á toppi metsölulista New York Times.* Bókin fjallar um Rachel sem ferðast alltaf með sömu lestinni fram og til baka í vinnuna. Lestin stansar alltaf á sama ljósinu fyrir aftan gömul íbúðarhús sem standa við lestarsporið. Rachel fyglgist vel með íbúum í einu húsanna, finnst að hún þekki þau og nefnir þau Jess og Jason. Einn daginn hverfur Jess og flækist þá Rachel, sem hefur fylgst svo vel með henni, inn í atburðarrásina.

Bókin er sögð frá sjónarhornum þriggja kvenna, Rachel, Megan (hin raunverulega Jess) og Önnu (konu fyrrverandi manns Rachel), yfir eins árs tímabil. Smám saman fer lesandanum að verða ljóst að ekki er allt sem sýnist í lífi þeirra. Rachel er alkóhólisti og því ekki treystandi sem sögumanni. Rithöfundurinn nýtir sér það til að gera söguna frumlegri.

Konunni í lestinni hefur verið líkt við Gone Girl eftir Gillian Flynn, og að vissu leyti eru þær líkar: kona hverfur í báðum bókum, karlmennirnir í sögunni eru mjög grunsamlegir og sagan er sögð í formi dagbóka. Hins vegar er Konan í lestinni ekki alveg jafn ófyrirsjáanleg og það er auðveldara að leggja hana frá sér heldur en Gone Girl. Bókin er mjög spennandi á tímabili en missir hins vegar vindinn þegar líður á seinni hluta hennar. 

*Bókin kom nýlega út í íslenskri þýðingu, höfundur þessara greinar hefur ekki kynnt sér þýðinguna, en hún hefur hins vegar setið á toppi metsölulista Eymundsson.

Í hnotskurn: Auðlesin spennusaga sem er tilvalin í sumarfríið. Söguþráðurinn er spennandi og kemur á óvart á köflum. Hins vegar er ekki um að ræða stefnumarkandi bók.

Sæunn Gísladóttir er blaðamaður á Viðskiptablaðinu