*

Menning & listir 31. október 2013

Bókaumfjöllun: Mánasteinn er ekki fyrir pempíur

Nýjasta bók Sjóns er stutt en kraftmikil saga af reykvískum unglingspilti í spænsku veikinni.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Þeir sem unna bókum sem fjalla um leitina eilífu að ástinni ættu ekki að láta nýjustu bókina eftir Sjón hjá sér fara. Þegar hryllingur spænsku veikinnar er bætt við söguna verður til frábær blanda.

Nýjasta bók Sjóns sem er nýkomin út heitir Mánasteinn eftir aðalsöguhetju bókarinnar. Bókin byrjar af krafti með myndrænni lýsingu af samförum Mána Steins, 16 ára samkynhneigðs drengs, með eldri manni í Öskuhlíð haustið 1918 og lífi hans í vændi á sama tíma og Katla gýs, fyrri heimsstyrjöldinni er að ljúka og fullveldi landsins handan við hornið. Ofan í þetta fellir spænska veikin stálpaða borgarbúa hverja á fætur öðrum og skilur eftir sig munaðarlaus börn og barnlaus gamalmenni. Drengur þessi er forfallinn bíóaðdáandi og liggur yfir því nýjasta úr bíóhúsum Evrópu. Þar ber hæst frönsk kvikmynd um blóðusugur sem éta franskt stjórnkerfi innan frá svo hriktir í stoðum samfélagsins.  Þegar mest gengur á blandast saman hryllingur spænsku veikinnar í Reykjavík og bíómyndirnar í magnaðri frásögn.

Í hnotskurn: Mánasteinn er bók sem lætur ekki mikið yfir sér enda tæpar 130 blaðsíður. En smæðin kemur ekki að sök. Frásögnin er rosaleg. Pempíur ættu kannski að finna sér aðra bók. 

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson er blaðamaður á Viðskiptablaðinu.

Stikkorð: Mánasteinn  • Sjón