*

Menning & listir 8. nóvember 2013

Bókaumfjöllun: Miðaldra maður skemmtir sér yfir bók Guðna

Gamansagnabók Guðna Ágústssonar kemur hressilega á óvart.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Ég var úrskurðaður aldraður eitt kvöld heima hjá mér í vikunni. Ástæðan voru hlátrasköllin sem frá mér bárust við lestur bókar Guðna Ágústssonar, Guðni – léttur í lund. Í samræmi við undirtitil bókarinnar segir Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og landbúnaðarráðherra, gamansögur og sögur af litríkum samferðamönnum sínum í gegnum tíðina.

Bókin skiptist í tíu hluta. Einn fjallar um sögur af stjórnmálamönnum í gegnum tíðina, annar eru sögur úr þingsal, sá þriðji eru sögur og sagnir af merku fólki og aðrir eru af svipuðum meiði. Eins og gengur um bækur af þessum toga má í bókinni finna kveðskap og vísur um menn og málefni í bland við annað.

Ekki kemur á óvart að bók Guðna er skemmtileg enda er hann annálaður fyrir hressleika sinn við hin ýmsu tækifæri. Það sem helst vakti furðu mína var hversu vel honum tókst að koma efni sínu niður á blað.

Bókin er í stuttu máli eldhress þótt neðanbeltishúmorinn sé á stundum á jaðrinum. Frásagnir Guðna af Drífu Hjartardóttur, fallhlífastökki hennar og fleiri atviku voru hreinast sagna á grensunni og um tíma leið mér eins og Guðni væri að leggja hana í einelti. Reyndar lenti kveðskapurinn ofan garðs og neðan hjá mér, en það skrifast á smekkleysi mitt fyrir slíku. Sömu sögu var að segja um nokkrum sögum þar sem Guðni ratar inn á hefðbundna frásögn af mönnum og málefnum líkum þeim sem finna má í mýmörgum gamansögum.

Kosturinn við bók Guðna er sú að þrátt fyrir grín hans á kostnað annarra þá hlífir hann sjálfum sér ekki neitt. Fjarri því, sögurnar af samlífi Guðna og Margrétar konu hans ná langt undir hjónasæng þeirra.

Í hnotskurn: Bráðsmellin bók fyrir alla – jafnvel fólk undir miðjum aldri.

Jón Aðalsteinn er blaðamaður á Viðskiptablaðinu