*

Menning & listir 21. júní 2014

Bókaumfjöllun: Ný bók kennir „áhættukænsku“

Bók eftir þýska sálfræðinginn Gerd Gigerenzer sýnir hvernig hentugast sé að taka ákvarðanir undir mikilli óvissu.

Kári Finnsson

Bandarískur veðurfréttamaður sagði eitt sinn: „Það eru 50% líkur á því að rigning verði á laugardaginn. Líkurnar á því að það rigni á sunnudaginn eru líka 50%. Þar af leiðandi eru 100% líkur á því að það rigni um helgina.” Flest okkar hlæja líklega að þessu. En ef veðurfréttamaðurinn hefði sagt að 30% líkur væru á rigningu á morgun, hvað hefði hann raunverulega átt við?

Í nýrri bók þýska sálfræðingsins Gerds Gigerenzer „Risk Savvy – How to make good decisions“ er ljósi varpað á almenna vangetu fólks til að átta sig á áhættu í umhverfi sínu. Í dæminu hér að ofan kristallast algeng hugsunarvilla þegar við stöndum frammi fyrir prósentutölum. Við heyrum oft fregnir af einhverri tiltekinni hlutfallsaukningu eða líkindum á einhverjum atburði án þess að farið sé í saumana á því úr hvaða heildarsamhengi hlutfallið er dregið. Í bókinni segir t.d. að þegar Berlínarbúar eru spurðir að því hvað það þýðir að 30% líkur séu á rigningu á morgun þá segja þeir ýmist að 30% sólahringsins fari í rigningu eða að það rigni á 30% af Berlínarborg.

Lausn Gigerenzers er fólgin í því að efla svokallað áhættulæsi (e. risk literacy) meðal almennings og sérfræðinga. Fólk skilur almennt ekki áhættuna sem er fólgin í mikilvægum ákvörðunum t.d. á sviði fjármála og heilbrigðis og fulltrúar þeirra sviða útskýra ekki nógu vel fyrir fólki áhættuna sem það stendur frammi fyrir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.