*

Menning & listir 13. desember 2013

Bókaumfjöllun: Sveitaleg sveitasaga

Óskar Magnússon hefur ritað hressilega sögu um sveitina, bankahrun og stífluð klósett í einkaþotu.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Óskar Magnússon, útgefandi Árvakurs, er á heimavelli í skáldsögunni Látið síga piltar. Í bókinni, sem er fyrsta skáldsaga höfundar á eftir smásagnaverkum hans, segir frá lífi bænda í Hlíðardal og viðskiptum þeirra við gráðuga fjármálabéusa í borginni. Inni í söguna blandast forríkir útrásarvíkingar, gengislán og eldsumbrot, fjárrekstur í öskuskýi og bankahrun. Lesendur ættu að kannast við margar af þeim persónum í bankageiranum sem Óskar segir frá, svo sem svilunum Finni og Gústaf, sem sagði eru vinna í pödduútflutningi og minna á Bakkavararbræður.

Eins og flestir vita er Óskar kunnastur fyrir forstjórastörf í gegnum tíðina, svo sem hjá TM og fleirum og þekkir flest sem þarf til að geta skrifað um viðskiptalífið. Færri vita kannski að Óskar býr fyrir austan í Fljótshlíðinni og má ekki útiloka að sveitungar hans þar kannist við mann og annan úr sögunni, jafnvel stöku atvik sem sagt er frá í sögunni.

Sagan af bændunum í Hlíðardal er skemmtileg og stíllinn léttur. Frásögnin er oft nokkuð formúleruð og nokkuð um endurtekningar í uppbyggingu í frásagnarforminu. Það er svolítið hvimleitt en alls leiðinlegt og dreifir sveitalegu kryddi yfir söguna.

Alltof langt mál yrði að tíunda skemmtilegheitin í sögunni. Sú af hamhleypunni Hirti bónda á Brún og samförum hans með kvenkyns bankastarfsmanni er til dæmis skemmtileg. Sú skemmtilegasta segir hins vegar frá aðförunum við að losa um stíflu í klósetti í einkaflugvél. Hryllilegra verður lífið varla.

Að öllu gamni slepptu lenda sögupersónur í ægilegum uppákomum. Síðustu metrarnir í sögunni þykja mér á hinn bóginn svolítið út úr kú miðað við það sem á undan er gengið. Þótt viðkomandi hafi átt það sem hér um ræðir skilið og lausnin ágæt eru aðfarirnar nokkuð harkalegar miðað við það sem á undan er komið.

Í hnotskurn: Hress og skemmtileg sveitasaga um þekkta atburði. Lesendur ættu að kannast við stöku persónur.

Jón Aðalsteinn er blaðamaður á Viðskiptablaðinu