*

Menning & listir 22. nóvember 2017

Bókin Heima sópast úr verslunum

Samfélagsmiðlastjarnan Sólrún Diego gefur út bók.

Kolbrún P. Helgadóttir

 „Ég er búin að vera að fjalla um þrif, húsráð og annað á samfélagsmiðlum og á netinu í svolítið langan tíma. Ég fæ ótal spurningar á hverjum degi og hef alltaf reynt að svara fólki eins og ég get. Mig langaði til þess að gefa út bók til að taka saman það sem ég hef fjallað um og svara þeim spurningum sem ég hef fengið,“segir Sólrún sem er með yfir 20 þúsund fylgjendur á Snapchat og Instagram en hún gaf út sína fyrstu bók á dögunum sem ber heitið Heima. Bókinni er ritstýrt af Birni Braga sem er jafnframt útgefandi hennar. Snorri Björnsson tók myndirnar í bókinni, sem eru sérstaklega glæsilegar.

„Þegar ég eignaðist dóttur mína árið 2015 fór ég að hugsa um hvernig efni ég notaði við þrifin. Ég hætti að nota skaðleg hreinsiefni og vildi alls ekki að hennar nánasta umhverfi væri þrifið með slíkum efnum. Ég var fljót að sjá að skaðlaus efni á borð við edik og matarsóda gerðu jafnvel enn meira gagn. Auk þess er ódýrara að nota slík efni og engin þörf á að eiga troðfullan skáp af alls kyns sérhæfðum hreinsiefnum.“

„Það eru engin tvö heimili eins og ég er alls ekki að reyna að setja einhverjar reglur um hvernig eigi að halda heimili. Ég er bara að deila góðum ráðum og aðferðum sem hafa nýst mér vel og geta vonandi hjálpað fólki að hafa heimilið nákvæmlega eins og það sjálft vill hafa það.“

„Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt ferli og frábært fólk sem kom að bókinni með mér. Ég gæti ekki verið ánægðari með útkomuna.“

Bókin Heima er komin í allar helstu verslanir og seldist upp á mörgum stöðum um síðustu helgi.