*

Matur og vín 11. nóvember 2021

Böl efst í alþjóðlegri keppni Brewdog

Bjór frá Böl Brewing, We took them in the Bakarí, hafnaði á dögunum í 1. sæti í alþjóðlegri bjórkeppni Brewdog, Collabfest 2021.

Böl Brewing hafnaði á dögunum í 1. sæti í alþjóðlegri bjórkeppni Brewdog, Collabfest 2021. 75 brugghús frá löndum víðsvegar um heiminn brugguðu bjóra sem seldir voru á Brewdog börum í Evrópu. Böl Brewing og Brewdog Reykjavík stungu saman nefjum og sendu út bjórinn We took them in the Bakarí. Keppnin virkar einfaldlega þannig að almenningur gefur bjórunum einkunn og sá bjór sem fær hæstu einkunnina vinnur.

„Þetta var hörð barátta og komst bjórinn okkar fljótlega upp í topp 5. Baráttan endaði svo á milli okkar og Duckpond Brewing frá Gautaborg í Svíþjóð,“ segir Andri Birgisson, framkvæmdastrarstjóri Brewdog Reykjavík.

„We took them in the bakarí er dökkur stout bjór bruggaður með snúðum sem við rupluðum frá vinum okkar í Brikk bakarínu. Bjórinn er bruggaður með ýmsum tegundum af dökku ristuðu korni og höfrum. Stíllinn er svolítið bland í poka, kveik pastry export stout, sem þýðir í rauninni sterkur stout með norsku sveitageri og bakkelsi,“ segir Hlynur Árnason, bruggmeistari Böl.

Bjórinn var sérbruggaður og aðeins í boði eina langa helgi. Þrátt fyrir að vera 7,5% að styrkleika seldust yfir 4.000 glös af honum á fjórum dögum. Bjórinn endaði keppnina með 4.15 af 5 mögulegum í einkunn og hafnaði eins og áður segir í efsta sæti.

„Baráttan var hörð en við náðum þessu, frændur okkar Svíar höfnuðu í öðru sæti með 4.14 og enduðu Japanir svo í því þriðja. Við erum í skýjunum með þessar móttökur og hlökkum til framhaldsins,“ segir Hlynur.

Þess má geta að We took them in the Bakarí er enn til í mjög takmörkuðu upplagi á Brewdog Reykjavík.

Böl Brewing er flökkubrugghús sem hefur starfað síðan í apríl 2020. Böl sérhæfir sig í framleiðslu á bjórum fyrir fólk sem vill prófa eitthvað nýtt og skemmtilegt.

Stikkorð: Böl Brewing  • Brewdog