*

Sport & peningar 13. júní 2018

Boltaberi á landsleik við Argentínu

Íslenskt barn verður boltaberi á leik Íslands og Argentínu, fyrir hönd Kia sem er samstarfsaðili FIFA en 300 börn sótt um.

Rebekka Rut Harðardóttir, 12 ára Árbæingur,  verður Boltaberi Kia á fyrsta leik Íslands í sögu HM, þegar liði mætir Argentínu þann 16. Júní á Spartak Stadium í Moskvu. Hátt í 300 börn frá öllu landinu sóttu um að vera Boltaberi Kia og komust 10 krakkar í lokaúrslit í þáttunum Söguboltanum á RÚV. Sigurvegarinn var tilkynntur með pompi og prakt í þættinum Áfram Ísland á RÚV.

„Ég elska fótbolta og var bara að gera það sem ég geri vanalega. Ég er mjög spennt þar sem þetta verður mikið ævintýri í Rússlandi en við fáum tækifæri til að skoða helstu staðina í borginni“ segir Rebekka.

Kia Motors stóð fyrir valinu

Kia Motors stendur fyrir valinu á Boltabera Kia fyrir fjölmarga leiki á HM í Rússlandi, þar sem þeir eru samstarfsaðilar FIFA og fékk Bílaumboðið Askja það verðuga verkefni að útnefna boltabera fyrir leik Íslands og Argentínu.

Börn fædd á árunum 2004-2007 sendu inn myndbönd þar sem þau sýndu ástríðu sína fyrir fótbolta og dómnefnd valdi 30 myndbönd af þeim í undanúrslit, en skoða má myndböndin á vef fyrirtækisins.

Lokakeppni haldin á RÚV

Í lokakeppninni, sem haldin var á vegum RÚV, framkvæmdu þau 10 sem komust í lokaúrslit ýmsar þrautir m.a. jafnvægisæfingar og fengu að sýna hæfni sína sem íþróttalýsendur. „Okkur bauðst tækifæri til að fá að sækja um að senda boltabera fyrir Kia hönd á HM í Rússlandi,“ Segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju.

„Við vorum mjög spennt þegar svarið var jákvætt og sóttum aukalega um þennan leik, Ísland-Argentína, sem við fengum. Verkefnið hefur verið virkilega skemmtilegt og frábært hversu margir flottir krakkar höfðu áhuga á hlutverkinu.“

Rebekka Rut mun fara með föður sínum, Herði Valssyni, til Rússlands á þennan sögulega stórleik,  sem eins og komið hefur fram, fyrsti leikur Íslands á HM frá því að keppnin var fyrst haldin árið 1930. Rebekka mun auk þess verða fyrsti íslenski boltaberinn, þannig það verður spennandi að fylgjast með henni.

Stikkorð: Askja  • FIFA  • Kia Sport  • Rebekka Rut Harðardóttir