*

Veiði 27. apríl 2014

Boltableikjur og 82 sentimetra sjóbirtingur

Um 150 fiskar hafa veiðst í Varmá. Þeir fiska mest sem eru á stöðum sem eru ekki í alfaraleið.

Varmá í Hveragerði er lítil stangaveiðiperla þar sem veiðimenn geta átt von á að fá stóra sjóbirtinga, fallegar bleikjur og staðbundinn urriða. Stundum veiðast laxar í ánni en það er þó algjör undantekning og ekki það sem veiðimenn eru að fiska eftir í þessari litlu á. 

Veiði í Varmá hófst 1. apríl og segir Ari Hermóður Jafetsson, sölustjóri hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur, að hún hafi gengið vel. „Það hefur veiðst mikið af boltableikjum og staðbundnum urriða en sjóbirtingurinn hefur verið tregari að því sem ég heyri,“ segir Ari Hermóður í samtali við Viðskiptablaðið. „Ég heyrði af 82 sentímetra sjóbirtingi, sem veiddist í kringum 10. apríl, og bleikjurnar hafa verið allt að 8 pund núna í vor. Fiskarnir eru almennt frekar stórir í Varmá og algeng stærð á sjóbirtingum er svona 70 til 75 sentímetrar.“

Eins og staðan er í dag hafa um150 fiskar verið skráðir í veiðibókina að sögn Ara Hermóðs. Hann bendir þó á að skráningu hafi alltaf verið ábótavant því sumir skrái ekki fiskana í veiðibókina sem er í litlum veiðikofa við ána. „Þannig að það eru ábyggilega töluvert fleiri fiskar komnir á land en þessir 150.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.

Stikkorð: Varmá