*

Hitt og þetta 3. apríl 2020

Bolurinn kominn

Hafin er framleiðsla á bolum sem með slagorðinu „Ég hlýði Víði".

Fyrirtækið Margt smátt, sem sérhæfir sig í auglýsinga- og gjafavörum fyrir fyrirtæki og félagasamtök, hefur hafið framleiðslu á bolum sem merktir eru „Ég hlýði Víði".  Ragnar Freyr Ingvarsson, yfirlæknir Covid-19 deildar Landspítalans, fékk fyrsta bolinn afhentan en Ragnar Freyr er einnig mörgum kunnur sem læknirinn í eldhúsinu.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra og meðlimur í teymi almannavarna vegna kórónufaraldursins, er orðinn landsþekktur eftir skörulega framgöngu á blaðamannafundum. Á fundum leggur hann landsmönnum gjarnan línurnar um hvað þeir megi eða megi ekki gera. Núna biður hann fólk til að mynda að vera heima hjá sér um páskana í stað þess að fara eitthvað út á land í ferðalag.

Margt smátt framleiðir bolina í samráði við Víði og mun hagnaður af sölunni renna óskiptur til Vonar, styrktarfélags gjörgæslu Landspítalans. Er markmiðið að safna að minnsta kosti einni milljón króna. Bolirnir fást í flestum stærðum og kosta 3.600 krónur. Birgir Ómarsson er hönnuður merkisins sem prýðir bolina.