*

Bílar 14. mars 2019

Bond á Rapide E rafbíl

Aston Martin rafbíll verður helsta farartæki njósnara hennar hátignar í næstu bíómynd. Einungis 155 eintök.

Tímarnir breytast og mennirnir með. Sjálfur James Bond mun nú sleppa takinu á eyðslumiklum sportbílum og aka rafbíl í næstu mynd um njósnara hennar hátignar.

Rafbíllinn sem Bond fær að aka í myndinni er svo sem ekkert slor en þetta er að sjálfsöðgðu Aston Martin og nýi rafbíll breska sportbílaframleiðandans sem ber heitið Rapide E. Aðeins verða framleidd 155 eintök af Rapide E rafbílnum en eintakið kostar um 38 milljónir króna. Rapide E er með 6 lítra V12 vél auk 800 vatta rafhlöðu sem færa honum 610 hestöfl og 950 Nm í togi. Bond ætti því að geta stungið óvini sína af í þessari hraðskreiðu kerru.

Aston Martin bílar hafa verið órjúfanlegur hluti af James Bond sem hefur ekið ófáum bílum frá breska framleiðandanum allt frá frá 1964 þegar Sean Connery ók DB5 sportbíl í myndinni Goldfinger.

Daniel Craig leikur Bond í fimmta sinn í næstu mynd um 007 sem hefur fengið vinnuheitið Shatterhand. Tökur á myndinni hefjast í næsta mánuði en stefnt er á að hún verði frumsýnd í apríl á næsta ári. Þetta verður 25. myndin um njósnara hennar hátignar. Og Bond mun nú leggja sitt af mörkum varðandi umhverfismildari akstur með minni útblæstri en njósnarinn er þó alla vega áfram á kraftmiklum bíl.

Stikkorð: Aston Martin  • James Bond  • Daniel Craig