*

Ferðalög 26. október 2017

Borg matar og menningar

Bologna er líklega ekki efst í huga fólks þegar það ferðast til Ítalíu.

Þessi fallega miðaldaborg er sannarlega vel þess virði að heimsækja og skoða vel. Borgin er höfuðstaður héraðsins Emilia Romagna og er ekki bara falleg heldur einnig þægileg og afslöppuð. Svæðið þar sem Bologna stendur var yfirráðasvæði Galla á Norður-Ítalíu þar til Rómverjar hröktu þá í burtu um 196 f.kr. Rómverjar stofnuðu borgina Bonina árið 189 f.kr. en nafnið breyttist síðar í Bologna.

Bologna er ein elsta og stærsta miðaldaborg Ítalíu. Aðalsættir borgarinnar áttu í deilum við Vatíkanið á 13. og 14. öld um völd í Bologna. Júlíus III páfi hafði að lokum betur og innlimaði Bologna í Páfaríkið árið 1506. Árið 1530 fór þar fram síðasta keisarakrýning á Ítalíu, þegar Karl V var krýndur. Árið 1796 gerði Napóleon Bonaparte Bologna að lýðveldi en þeim kafla lauk 19 árum síðar og Bologna varð á ný hluti Páfaríkisins. Árið 1860 varð Bologna hluti ítalska konungsríkisins. Borgin er sögufræg og þer er margt áhugavert að skoða. Aðaltorgið Piazza Maggiore er sérlega fallegt og það er eins og vera komin aftur til miðalda því þar stendur hver tignarleg miðaldahöllin á fætur annarri. Basilica San Petronio stendur við Piazza Maggiore en þessi gríðarlega stóra kirkja geymir mikinn fjölda listaverka, þ.á m. verk eftir Cassini og Domenico Guglielmini.

Konungar krýndir og fangelsaðir
Karl V, keisari Heilaga rómverska keisaradæmisins, var krýndur í kirkjunni árið 1530 af sjálfum páfanum. Karl V varð þar með einnig konungur Ítalíu en á þeim tíma var borgin og stærstur hluti Ítalíu undir Páfaríkinu eins og áður segir. Elisa Boneparte, systir Napoleons, er grafin þarna. Palazzo Re Enzo er ein af höllum torgsins en þar var konungur Sardiníu, Enzo, í fangelsi í 23 ár á 13. öld eftir hann var handtekinn í orrustu í nágrenninu. Enginn kom að borga lausnargjald fyrir konunginn og hann lést í fangelsi í höllinni sem síðan var nefnd í höfuðið á honum. Við torgið standa einnig hallirnar Pallazzo d’Accursio, sem var ráðhús borgarinnar í margar aldir, Pallazzo del Podesta og styttan af Neptúnusi við gosbrunninn Fontana del Nettuna. Kvikmyndahátíð er haldin á torginu frá miðjum júní fram í miðjan júlí en þá eru sýndar ítalskar kvikmyndir á risatjaldi og safnast þá mikill fjöldi fólks á torginu. Ein og ein alþjóð- leg mynd fær að fljóta með. Þetta er mjög skemmtileg uppákoma og mikil stemning sem myndast á torginu á kvöldin þegar myndirnar eru sýndar

Mikil matarmenning
Matarmenningin er mikil í Bologna og fjöldi góðra veitingastaða. Spaghetti Bolognese var fundið upp í Bologna eins og nafnið gefur til kynna og þeir minna mann á það, þjónarnir. Aðrir réttir sem veitingastaðir borgarinnar bjóða upp á og eru tengdir Bologna eru lasagne verdi alla bolognese, tagliatelle al ragú bolognese, tortellini di Bologna og cotoletta bolognese. Þá má ekki gleyma pastaréttum á borð við tagliatelle og tortellini. Og ekki gleyma Tiramisu í eftirrétt. Pítsurnar eru líka gómsætar á mörgum veitingastöðunum sem merktir eru sérstaklega Pizzeria. Eitt er víst að það er enginn svangur í Bologna, frekar að fólk fái valkvíða hvað það eigi að velja af girnilegum ítölskum réttum úr eldhúsi heimamanna.