*

Matur og vín 9. febrúar 2013

Borg Restaurant opnar í lok mánaðarins

Íslenski barinn lokar á sama tíma og opið verður frá morgni til kvölds á nýjum stað.

„Við erum að vinna í endurbótum á húsnæðinu og matseðlinum í þessum töluðu orðum en þetta er að taka á sig mynd,“ segir Völundur Snær Völundarson mat­reiðslumaður. Völundur Snær og Haukur Víðisson matreiðslumenn hafa tekið við veitingarekstri Hótel Borgar og Íslenska barsins.

Veitingastaðurinn Borg Restaur­ant opnar nú í lok mánaðarins: „Húsnæðið er ótrúlega fallegt og það sem við erum að reyna að gera er að endurvekja Art Deco glæsileikann.“ Og þeir sem vinna í miðbænum ættu að kætast því staðurinn verður opinn í hádeginu líka: „Þar sem þetta er hluti af Hótel Borg þá er boðið upp á morgunmat og því er opið frá morgni til kvölds.“

Völundur Snær segir frekari breytingar fyrirhugaðar en um leið og Borg Restaurant opnar þá lokar Íslenski barinn: „Verið er að hanna splunkunýtt konsept þar sem verður mjög spennandi,“ segir Völundur Snær.