*

Hitt og þetta 18. september 2013

Borga aldrei aftur fyrir flug vegna súkkulaðibúðings

Verkfræðingurinn David Phillips og fjölskylda hans þurfa aldrei aftur að borga fyrir flug. Hvers vegna? Jú, hann keypti súkkulaðibúðing.

Fyrir alla þá sem lesa smáa letrið og kunna að nýta sér góð tilboð þá ætti þessi grein hér á Gizmodo að vekja mikla kátínu.

Verkfræðingurinn David Phillips vakti töluverða athygli á dögunum þegar það fréttist að hann hefði nýtt sér tilboð sem fólst í því að skila strikamerkingarmiðanum af dollum af súkkulaðibúðingi í skiptum fyrir flugpunkta.

Þetta var árið 1999 þegar matvælaframleiðandinn Healthy Choice var með kynningu á nýrri línu og í því fólst tilboð: Fyrir 10 súkkulaðibúðingsdollur fást 500 flugpunktar. En í smáa letrinu stóð að fyrsta mánuðinn fengust 1000 flugpunktar fyrir 10 dollur.

David stökk á tilboðið og fann að í ódýrustu matvöruverslununum fékkst dollan á 25 sent. Þetta þýddi að hann gat fengið 1000 flugpunkta fyrir tvo og hálfan dal. David eyddi allt í allt 3000 dölum í búðing og fékk flugpunkta að andvirði 150 þúsund dali fyrir ómakið.

Í dag ferðast öll fjölskylda Davids á punktunum og þau munu sennilega aldrei borga krónu fyrir flug það sem eftir er ævinnar því þau safna svo mörgum punktum á þessum ferðalögum. Og David, sem kann á tilboðin, passar að þau panti alltaf flug sem safnar sérstaklega mörgum punktum.