*

Ferðalög & útivist 2. október 2016

Borgin sem aldrei sefur

New York er fjölmennasta borg Bandaríkjanna.

New York borg er á norðausturströnd Bandaríkjanna og er fólksfjöldi hennar tæpar níu milljónir og er því fjölmennasta borg Bandaríkjanna. Áður fyrr hafði New York af mikla glæpatíðni en nú er öldin önnur.

New York er borg með allt milli himins og jarðar, það sem þig dreymir um finnur þú þar. Borgin er fræg fyrir hátískuiðnað. Þar er hægt að fá öll helstu tískumerki heims á borð við Vera Wang, Ralph Lauren, Marc Jacobs og svo mætti lengi telja.

Flestallir sem koma til New York ættu að kannast við sig þar á einhverjum tímapunkti og er það vegna þess að óteljandi margar bandarískar kvikmyndir hafa verið teknar upp í borginni. Sem dæmi er Times Square einn vinsælasti staður ferðamanna til að heimsækja og og einnig Empire State-byggingin sem er hæsta bygging borgarinnar.

Samgöngur í New York eru með ágætu móti og er auðvelt að ferðast með neðanjarðarlest á milli staða. Þó er ekki hægt að stóla á lestina um helgar og ætti fólk að vera viðbúið því að hoppa upp í næsta leigubíl. Á háannatíma getur verið ansi mikil þröng á þingi í lestinni en þá er gott að hafa með sér góða bók og gleyma sér í smá stund.

New York-borg á nokkra fallega almenningsgarða þó að borgin sé að megninu til steypa. Central Park er 340 hektara stór og er einn fjölsóttasti garður Bandaríkjanna. Garðurinn er einnig vinsæll tökustaður fyrir kvikmyndir. Washington Square Park er einnig skemmtilegur garður til að hitta fólk, hlusta á tónlist eða til að skoða mannlífið.

Nánar er fjallað um New York í nýjasta tölublaði Eftir Vinnu sem áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Bandaríkin  • ferðalög  • New York  • Eftir vinnu  • Bandaríkin