*

Sport & peningar 6. febrúar 2013

Börn í fátækum löndum geta glaðst yfir tapi 49ers

Fatnaður merktur tapliðinu í Superbowl úrslitaleiknum í amerískum fótbolta er gefinn til góðgerðamála.

Stuðningsmenn bandaríska fótboltaliðsins San Fransisco 49ers munu ekki geta keypt boli, peysur, hatta og annan fatnað þar sem sigri liðsins í Superbowl úrslitaleiknum er fagnað. Ástæðan er svo sem einföld, því liðið tapaði í leiknum gegn Baltimore Ravens. Fatnaðurinn var hins vegar hannaður og framleiddur nokkru fyrir leikinn og er því ennþá til. NFL deildin vill hins vegar ekki að seldur sé varningur sem fagnar sigri sem aldrei varð og er því ekki hægt að kaupa fötin. Fyrstu þrjátíu árin sem úrslitakeppnin var haldin var þessi fatnaður eyðilagður, en undanfarin sautján ár hefur deildin hegðað sér af aðeins meiri skynsemi.

Þegar úrslitin eru ljós er varningi sem merktur er tapliðinu pakkað ofan í kassa og sendur þurfandi fólki í þróunarlöndum eða á svæðum þar sem nýlega hafa gengið yfir náttúruhamfarir.

Árið 2010 hefur heimilislausum börnum væntanlega verið innilega sama um niðurlæginguna sem Peyton Manning og félagar í Indianapolis Colts þurftu að þola fyrir New Orleans Saints. Þau fengu fullt af bolum merktum Colts. Nokkrum árum áður fengu börn í Rúmeníu og Tsjad boli merkta Chicago Bears eftir að Manning og félagar ruddust yfir það lið í Superbowl. Algengt er svo að peysur og hlýrri fatnaður sé sendur á kaldari slóðir eins og Mongólíu.