*

Menning & listir 11. september 2012

Brad Pitt: Milljón dollara laun eru liðin tíð

Leikarinn segir efnahagskreppuna gera það að verkum að kvikmyndaverin eigi undir högg að sækja.

Leikarinn Brad Pitt segir dagana talda þar sem leikarar geta farið fram í milljónir dollara í laun fyrir leik sinn í kvikmyndum.

Hann segir þá talnafræði ekki ganga upp að borga leikurum allt að 10 milljónir dollara fyrir að leika í einstökum myndum. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Pitt segir mörg kvikmyndaver Hollywood eiga undir högg að sækja vegna efnahagskreppunnar. Kvikmyndaverin hafi því verið að veðja á færri en stærri verkefni. Það geri það að verkum að dyr opnast fyrir nýja leikstjóra og framleiðendur á þessum markaði.

Þess má geta að Pitt er á meðal best launuðu kvikmyndaleikara heims. Samkvæmt lista Forbes fyrir árið 2012 voru laun Pitt talin nema um 25 milljónum dollara en Tom Cruise er talinn með hæstu launin eða um 75 milljónir dollara.

Stikkorð: Kvikmyndir  • Brad Pitt