*

Veiði 20. júní 2014

Bræðurnir í Kjötborg opnuðu Elliðaárnar

Elliðaárnar skiluðu yfir 1100 löxum í fyrra og vonast er til þess að veiðin verði góð í ár.

Reykvíkingar ársins, kaupmennirnir í Kjötborg, Gunnar og Kristján Jónassynir, opnuðu Elliðaárnar í morgun. Þetta kemur fram á fésbókarsíðu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra í morgun. Meðfylgjandi mynd er fengin að láni af vef síðunnar. Áður fyrr var sú hefð að borgarstjóri opnaði Elliðaárnar að sumri. Sú hefð breyttist í tíð Jóns Gnarr sem borgarstjóra og var þá valinn Reykvíkingur ársins sem opnaði árnar. 

Á vef Stangaveiðifélags Reykjavíkur segir að Elliðaárnar slái flestum laxveiðiám ref fyrir rass þegar kemur að veiðitölum. „Veiðin í Elliðaánum hefur verið stöðug og góð undanfarin ár. Sumarið 2013 skiluðu þær 1.145 löxum og standa Elliðaárnar því vel í samanburði við aðrar ár hér á landi. Við vonumst til þess að góð veiði verði í Elliðaánum á komandi sumri enda hefur hófs verið gætt í veiðinni undanfarin ár. Seiðum er ekki sleppt í Elliðaárnar og eru þær því algerlega sjálfbærar. Kvóti er tveir laxar á hálfsdagstöng og verður svo áfram,“ segir á vefnum. 

Stikkorð: Elliðaár