*

Viðtal, Hitt og þetta 16. mars 2017

Brann út fyrir hrun

Pétur Einarsson ólst að miklu leyti upp á erlendri grundu þar sem faðir hans starfaði sem sendiherra. Hann gekk menntaveginn, starfaði í bankaheiminum og lifði farsælu lífi, svona samkvæmt bókinni í það minnsta.

Kolbrún P. Helgadóttir

„Ég lifði ótrúlega rúðustrikuðu lífi og gerði allt sem ég taldi rétt til þess að ná árangri á þeim tíma, gekk mjög vel í bankanum en ég gerði á sama tíma ekkert út fyrir ramman og var bara orðinn leiðinlegur. Ég ætlaði mér til dæmis alltaf að fara ferðast vítt og breitt um heiminn en gerði það aldrei.“ Nú tuttugu og fimm árum síðar er Pétur hinsvegar staddur í miðju ferðalagi sínu umhverfis hnöttinn. „Ég lét loksins verða að því að gera allt sem mig langaði til að gera, hreyfa mig, sinna andlegum málum, ferðast um heiminn og nú búa til myndir.“ Pétur þurfti einmitt að gera örstutt hlé á ferðalagi sínu þar sem hann var tilnefndur til Eddunnar fyrir heimildarmynd sína Ránsfengur og brá sér því í stutt stopp á klakann.

Brann út fyrir hrun 

Aðspurður um það hver vendipunkturinn var í hans lífi og hvað varð til þess að hann breytti um stefnu segist hann eiginlega bara hafa brunnið út. „Ég bjó í London og vann í banka rétt fyrir hrun og vinnudagarnir voru frá því klukkan sex á morgnanna til tíu á kvöldin og á einhverjum tímapunkti gafst ég bara upp og sagði upp starfi mínu.“

 Á þessum tímamótum fór Pétur að stunda hlaup og síðan þríþraut sem síðar þróaðist í Ironman. „Vinur minn hann Viðar Bragi Þorsteinsson fékk þátttökurétt í fyrsta Ironman keppninni sem haldin var á Hawai. Ég hafði gríðarlega mikinn á huga á þessu öllu saman og bauðst til að hjálpa honum með eitt og annað og að fylgja honum eftir. Svo kom upp sú hugmynd að gera bara heimildarmynd um þátttöku hans og úr varð myndin Viðar Bragi Ironman 1341 sem við Þorsteinn J. Vilhjálmsson unnum saman og var síðar sýnd á RÚV og tókst bara nokkuð vel til.“

Eftir þessa reynslu hvatti Þorsteinn Pétur til frekari verka á þessu sviði og úr varð fyrsta mynd Péturs, Ránsfengur.
Hann segir það ekki beint hafa verið ætlunina að feta þessa braut en að hann kunni þessu tjáningarformi vel. „Sagan sem ég segi í myndinni er einfaldlega bara saga sem varð að segja.“ En myndin fjallar um hugrakka fjölskyldu sem að fór í mál við Landsbankann eftir hrun.

Heppinn maður 

Mynd Péturs hefur hlotið verðskuldaða athygli en fyrir honum er kvikmyndagerðin ákveðin leið til að gefa til baka. „Ég hef verið mjög heppinn maður, ég bý við góða heilsu, það hefur gengið vel í lífinu og ég hef fengið mikið út úr því sem eru mikil forréttindi. Nú er ég kominn á þann stað að mig langar að gefa af mér og hjálpa öðrum. Pétur segir að hann langi að einbeita sér enn frekar að kvikmyndagerð en að sagan verði að vera góð. Tilgangur heimsferðarinnar er einmitt meðal annars sá að leita innblásturs fyrir næstu mynd. „Komandi úr viðskiptaheiminum þykir mér þetta heillandi leið til að tjá mig. Þetta er flókið frumkvöðlastarf sem mér finnst frábært að fara í gegnum og læra af. Það er líka svo magnað að uppgötva að það má eiga mörg líf í þessu lífi, það má skipta um skoðun og það má breyta um stefnu í lífinu. Fólk sem er ekki hamingjusamt í störfum sínum og lífinu almennt á ekki að hræðast það að fylgja hjartanu. Ég hef mjög gaman að því að ræða þessa hluti við fólk og miðla reynslu minni ef það getur hjálpað þeim,“segir Pétur.

Ferð sem breytti lífi mínu 

Ferðalagið hefur nú þegar gert Pétri fleira gott en að stækka heiminn, hitta fólk og skapa því á afskekktri siglingu á miðju ferðalagi hvarf allt símasamband en Pétur viðurkennir að tilfinningin hafi verið örlítið lamandi í fyrstu en eftir smá tíma hafi hann upplifað mikið frelsi og rými til þess að njóta augnbliksins, lesa bók sem hafði verið bakpokanum um langt skeið, sofa undir stjörnubjörtum himni og vera á staðnum. „Síma og tölvunotkun er ein helsta ógn okkar við samfélagið og jafnvel heilsuna eins og staðan er núna. Til þess að ná árangri þarf maður að fókusa og einbeita sér. Og til þess að finna út úr því hvað maður vill þarf maður að læra að vera í núinu og hlusta á sjálfan sig. Það gerist ekki með símann við hönd.“

Mikilvægt að vera góð fyrirmynd 

Pétur lætur það sér það þó ekki duga að ferðast um heiminn, búa til kvikmyndir og sinna heilsunni vel því hann vinnur nú einnig hörðum höndum að því að skipuleggja stórglæsilegan íþróttarviðburð sem ber heitið challengeiceland.is og fer fram hér á landi í júlí. „Þetta er fyrsta alþjóðlega mótið í þríþraut sem haldið er á Íslandi en viðburðurinn hefur nú þegar fengið mikla umfjöllun erlendis.“ Pétur segir þetta part af þeirri þörf að styðja við ungar og flottar fyrirmyndir í samfélaginu, hann játar því þó líka að vera örlítið manískur þegar kemur að því sem að hann brennur fyrir. „Það er einstaklega mikilvægt fyrir unga fólkið okkar að hafa góðar fyrirmyndir í lífinu,“segir Pétur að lokum en að loknu þessu viðtali hélt hann einmitt til Ástralíu til að vera Sigurði Erni Ragnarssyni til halds og trausts sem er að undirbúa sig undir að keppa fyrstur á Ólympíuleikunum í þríþraut og halda áfram ævintýralegri ferð sinni um heiminn.