*

Menning & listir 26. apríl 2012

Branson vill gera kvikmynd um Rolling Stones - myndband

Richard Branson hefur keypt réttinn á bók um gerð plötunnar Exile on Main Street.

Auðmaðurinn og ólíkindatólið Richard Branson hefur sjaldan synt með straumnum í fjárfestingum eða fyrirtækjarekstri. Fáum öðrum hefði dottið í hug að fara úr plötusölu í flugfélagarekstur og þaðan í geimflug. Nýjasta verkefni Bransons er þó öllu menningarlegra, en hann hefur keypt réttinn til að gera kvikmynd eftir bókinni Exile on Main Street: A Season in Hell with the Rolling Stones eftir Robert Greenfield. Í bókinni er sagt frá vinnu og upptökum Rolling Stones á hljómplötunni Exile on Main Street í glæsivillu Keith Richards í S-Frakklandi árið 1971.

Hljómsveitarmeðlimir voru í Frakklandi í eins konar skattaútlegð, en þeir skulduðu yfirvöldum fé sem þeir gátu ekki greitt. Eftir því sem leið á vinnslu plötunnar súrnaði sambandið milli Mick Jagger og Keith Richards.

Ef af gerð myndarinnar verður er það ekki í fyrsta skipti sem Branson kemur að kvikmyndaframleiðslu, því hann stóð að gamanmyndinni Electric Dreams árið 1984 og heimildarmyndinni Jambo Jumbo árið 2010. Búið er að ráða handritshöfunda, sem vinna eiga handrit upp úr myndinni. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um það hverjir eigi að leika hljómsveitarmeðlimina.

Hér má sjá brot úr heimildamyndinni Stones in Exile sem gerð var um upptökur Rolling Stones í Frakklandi. Hún var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir tveimur árum.