*

Menning & listir 19. júlí 2017

„Brenn fyrir því að efla náttúruvitund fólks“

Tómas Guðbjartsson yfir hjarta- og lungnaskurðlæknir segir bókina Draumalandið hafa breytt lífi sínu.

Kolbrún P. Helgadóttir

Lestu mikið? 

Ég les mjög mikið en oftar en ekki bækur og vísindarit sem tengjast starfinu. En ég hef mjög gaman af því að lesa skáldsögur og bækur um útivist og fjallgöngur, en það kemur í skorpum. Hef mjög gaman af íslenskum skáldsögum og íslenskum rithöfundum.

Uppáhaldsbókin þín?
Besta bókin sem ég hef lesið um ævina er Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness. Hún er ótrúlega vel skrifuð og lýsir Íslendingum og íslenskri náttúru á svo skemmtilegan hátt. Af erlendum bókum er Disgrace eftir S-Afríkanann og nóbelsverðlaunahafann J. M. Coetzee í miklu uppáhaldi.


Ef þú myndir skrifa bók, um hvað yrði hún?
Mig langar til að skrifa bók um íslensk fjöll og íslenskar náttúruperlur, enda hef ég átt þess kost að ferðast um gjörvallt Ísland. Ég brenn fyrir því að efla náttúrvitund fólks, ekki síst yngra fólks, og stuðla að náttúrvernd.

Hvort kýstu bókina eða bíómyndina?
Ég er miklu hrifnari af góðri bók en bíómynd og horfi mjög lítið á sjónvarp. En hef þó gaman af því að fara á góða kvikmynd en hún verður að vera mjög góð til þess að ég nenni að fara í bíó. Ég reyni að sjá flestar íslenskar kvikmyndir og einstaka erlendar, sérstaklega ef þær eru sýndar í Bíó Paradís.

Bókin sem breytti lífi þínu?
Það var bókin Draumalandið eftir vin minn hann Andra Snæ. Hún var vissulega beinskeytt verk en ég var ótrúlega sammála mörgu sem þar kom fram. Þessi bók var vitundarvakning hjá mér eins og svo mörgum öðrum sem láta sig náttúruna varða og efldi mig í baráttu minni fyrir því að auka meðvitund Íslendinga um þá stórkostlegu náttúru sem við eigum – og þurfum að varðveita til framtíðar.

Hvaða bók langar þig að lesa næst?
Ég er ég að lesa bókina Sögu tónlistarinnar eftir Árna Heimi Ingólfsson sem er afar fróðleg bók og listilega vel skrifuð. Hlakka líka alltaf til að lesa Braga Ólafsson og Sjón.