*

Sport & peningar 2. febrúar 2011

Bresk lið keyptu leikmenn fyrir 42 milljarða í janúar

Félagslið í bresku úrvalsdeildinni hafa aldrei eytt meiru í kaup á leikmönnum en nú í janúar.

Bresku félagsliðin í úrvalsdeildinni (e. Premier League) vörðu samtals 225 milljónum punda, tæplega 42 milljörðum króna, í kaup á leikmönnum í janúar.  Þetta kemur fram á vef Deloitte.

Bresku liðin hafa heimild til að skipta um leikmenn tvisvar á ári hverju.  Annars vegar frá 1-31. janúar og frá lokum keppnistímabils (sem er 22. maí í ár) til 31. ágúst.  

Liðin hafa aldrei eytt jafn miklu og nú í janúar eða 225 milljónum punda. Fyrra met er síðan janúar 2008 en þá eyddu liðin 175 milljónum punda. Í janúar 2010 eyddu liðin aðeins 30 milljónum punda í leikmannaskipti.

Fjögur lið áttu stærstan hlut upphæðarinnar, Chelsea, Liverpool, Aston Villa og Manchester City. Chelsea keypti Fernando Torres frá Liverpool fyrir 50 milljónir punda, 9,2 milljarða króna, sem er tæplega fjórðungur heildarkaupa í deildinni. Aldrei hefur leikmaður verið seldur á hærra verði milli tveggja breskra félagsliða.

Hér má sjá samantekt Deloitte í heild sinni.

Stikkorð: Deloitte  • Fernando Torres  • Premier League