*

Bílar 12. ágúst 2016

Breskur gullmoli Bristol Bullet

Handsmíðaður eðalsportbíll

Róbert Róbertsson

Bristol Cars mun seint teljast frægasti bílaframleiðandi í heimi en getur þó státað sig af því að vera einn sá vandaðasti. Bristol Cars var stofnað fyrir 71 ári og hefur framleitt ýmsa gullmola. Sá nýjasti lítur nú dagsins ljós en hann ber heitið Bristol Bullet.

Þessi tveggja sæta blæjubíll er með 4,8 lítra V8 vél sem skilar 370 hestöflum. Vélin er frá BMW og er tengd við ýmist beinskiptinu eða sjálfskiptingu sem einnig eru frá bæverska bílaframleiðandanum BMW. Sportbíllinn er aðeins 3,8 sekúndur úr kyrrstöðu í hundrað km hraða og hámarkshraði bílsins er 250 km/klst. Bristol Bullet er frekar léttur eða aðeins 1.100 kíló og hjálpar það að sjálfsögðu til sem og að koltrefjar eru einnig notaðar að mestu í yfirbyggingu bílsins. Innréttingin er glæsileg þar sem sjá má pússað króm og þá eru sætin eru úr hnausþykku eðalleðri. Allir bílar Bristol Cars eru handsmíðaðir og svo er einnig með þennan sportbíl sem mun kosta um 40 milljónir króna. Bílaframleiðandinn breski framleiðir innan við 200 bíla á ári en þeir hafa reynst vel í gegnum áratugina og að sögn fyrirtækisins eru um 70% bíla Bristol Cars enn á götunum sem verður að teljast afar góður árangur.

Stikkorð: Bristol  • Bullet