
Indverski bifreiðaframleiðandinn Tata Motors Ltd. hefur nú lýst því yfir að félagið hyggist breyta nafni nýs hlaðbaks sem verður sýndur í fyrsta sinn næsta föstudag.
Hlaðbakurinn átti að heita “Zica” en í ljósi faraldurs Zika-vírussins sem geisar nú um amerísku heimsálfuna hefur félagið tekið ákvörðun um að kalla bílinn eitthvað annað.
Í yfirlýsingu frá félaginu segir meðal annars að Tata Motors sé félagslega ábyrgt fyrirtæki, og að það „finni til með erfiðleikum fólks sem hefur orðið fyrir Zika-vírusnum. Því hefur félagið ákveðið að finna bílnum nýtt nafn.”
Zika-vírusinn er veira sem berst með moskítóflugum. Hann getur leitt til fæðingargalla, verði hann til þess að sýkja óléttar konur. Veiran hefur breiðst hratt út um Suður- og Mið-Ameríku, samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.