*

Sport & peningar 4. febrúar 2013

Bara einn leikur í enska boltanum sýndur klukkan þrjú

Einn leikur í enska boltanum verður sýndur á laugardögum klukkan þrjú á næsta tímabili í stað margra áður.

Guðni Rúnar Gíslason

Aðeins einn leikur verður sýndur í enska boltanum klukkan þrjú á næsta leiktímabili í stað margra í einu á mörgum sjónvarpsstöðvum. Þetta kemur til vegna breytinga á skilmálum sem ákveðið var af hálfu Premier League og sjónvarpsstöðvarinnar Sky, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Aðrir leikir sem fara fram á öðrum tímum, t.d. hádegisleikir á laugardögum, leikir á sunnudögum og mánudögum verða áfram sýndir hjá þeim sem verður með útsendingarréttinn.

Ástæðuna fyrir þessari breytingu má rekja til dómsmála sem eru kennd við kráareigandann Karen Murphy. Í stuttu máli snýr málið að því að hún hefur sýnt leiki í útsendingu erlendra sjónvarpsstöðva. Með breytingunni á útboðsskilmálunum ætla forsvarsmenn ensku deildarinnar að koma í veg fyrir að leikir frá erlendum sjónvarpsstöðvum verði sýndir á breskum krám.

Í Englandi er það raunar þannig að Sky sýnir ekki frá neinum leik klukkan þrjú á laugardögum. Ljóst er að þetta er ákveðin breyting fyrir áhugamenn um enska boltann hér á landi. Ekki er sjálfgefið að sjónvarpsleikurinn klukkan þrjú á laugardegi sé endilega sá leikur sem flestir telja stærsta leikinn. Þá getur komið upp sú staða að áhorfendur geti ekki fylgt sínu liði þegar það á leik á laugardegi. Með þessu er einnig komið í veg fyrir að áhorfendur geti flakkað á milli leikja eins og venja hefur verið á síðustu tímabilum

Eins og fjallað hefur verið um áður má búast við niðurstöðum útboðs um útsendingarréttinn á allra næstu dögum. Kemur þá í ljós hvort að 365 miðlar haldi réttinum til  næstu þriggja ára.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.

Stikkorð: Enski boltinn  • Sky