*

Tíska og hönnun 26. mars 2017

Brjóta blað í 200 ára sögu

Guerlain frumsýndi á dögunum nýjan ilm sem ber heitið Mon Guerlain. Ilmurinn er afrakstur samstarfs Angelinu Jolie og Thierry Wasser.

Kolbrún P. Helgadóttir

 Þetta er í fyrsta skiptið í langri sögu fyrirtækisins sem að þekkt andlit prýðir vöru með þessum hætti. Leikkonan er ekki bara andlit ilmsins því hún leikstýrði einnig auglýsingunni á bak við hann og gaf allan afrakstur vinnu sinnar til góðgerðarmála. Eftir vinnu kynnti sér farsæla sögu fyrirtækisins.

Þetta elsta ilmhús heims var stofnað árið 1828 af Pierre-Franҫois Pascal Guerlain fyrsta svokallaða nefi Guerlain. Hann var þekktur fyrir ilmi sem að hann bjó sérstaklega til fyrir konungsfólk og hærri stéttir samfélagsins. Frægasti ilmurinn hans er Léu de cologne imperial sem hann bjó til fyrir Eugine,  eiginkonu Napoleons III. Er ilmurinn sá ekki síður frægur fyrir flöskuna sem  umlýkur hann en hún  er skreytt 69 gull býflugur sem að táknuðu veldi Napoleons. Flöskuna er hægt að bera augum í verslun Guerlain á Champs-Élysées í París.

Innblástur úr ástarsögu

Eftir andlát Pierre-Franҫois var fyrirtækið í höndum sona hans, Aimé Guerlain og Gabriel Guerlain. Gabriel varð framkvæmdarstjóri og Aimé nýja nef Guerlain. Veldi Guerlain óx jafnt og þétt með bræðrunum og skildi Aimé eftir sig annan einstakan Guerlain ilm, Jicky sem kom fyrstur ilma í Quadrilobe flösku árið 1908.

Sonur Gabriel Guerlain, Jacques tók næstur við Aimé sem nef fyrirtækisins og er hann án efa frægasta nef Guerlain sögunnar. Hannaði hann ilmi á borð við L‘Heure Bleaue, Mitsouko og síðast en ekki síst Shalimar sem er þekktasti ilmur Guerlain hússins. Sagan segir að Jacques hafi prufað að hella heilu prufu glasi af vanillu í ilminn Jicky og þá hafi Shalimar litið dagsins ljós. Ilmurinn skartar einstöku glasi en það er fyrsta ilmglasið sem var á fæti og einnig fyrsta glasið með lituðu gleri.

Ástarsaga sem að veitti Jacques innblástur við gerð Shalimar er saga Shah Jahan keisari frá Indlandi sem var yfir sig ástfanginn af konunni sinni Mumtaz Mahal og til að sýna henni ást sína lét hann reisa Taj Mahal, sem er í dag eitt af sjö undrum veraldara og Shalimar garðana henni til heiðurs. Glas Shalimar ilmsins er því hannað eftir vatnsbrunni í garði Shalimar og ilmurinn segir ástarsöguna sem er full dulúðar og rómans.

Fyrsta nef utan fjölskyldunnar

Barnabarn Jacques, Jean-Paul Guerlain byrjaði svo sem nef ilmhússins þegar að hann hjálpaði afa sínum við hans síðustu sköpun, Ode árið 1955, og eftir það tók hann við. Hann er þekktastur fyrir ilminn Samsara sem er ofskammtaður af mjúkum og seiðandi „sandalwood“. Jean-Paul hætti sem nef fyrirtækisins árið 2002 en hélt þó áfram sem ráðgjafi innan fyrirtækisins. Hann var því síðasti nef fyrirtækisins sem að bar Guerlain nafnið.

Árið 1994 seldir fjölskyldan fyrirtækið til LVMH group árið og eftir starfslok Jean-Paul árið 2002 var fólk innan LVMH group fengið til að búa til ilmi en enginn hreppti starfstitilinn „master perfumer „eða nef fyrirtækisins fyrr en árið 2008 á ný.

Kom þá Thierry Wasser til sögunnar, eitt þekktasta nef ilm bransans en hann hefur gert fræga ilmi á borð við: Hypnose Lancôme og Dior Addict. Á þeim níu árum árum sem að hann hefur starfað hjá Guerlain hefur hann sent frá sér hvert meistaraverkið á eftir öðru. Þar á meðal La Petite Robe Noire eða litlu svörtu kjólana, L‘homme Ideal fyrir hann og síðast en ekki síst Shalimar Souffle.

Ilmhúsið á því orðið 200 ára sögu en á þeim tíma hafa 1100 ilmir verið búnir til. Það er því óhætt að segja að saga hússins sé rík og hafi djúpar rætur sem að er sjaldgæft í dag enda lagt mikið uppúr því að halda í hana og virða. Merkið stendur fyrir lúxus handbragð, einstaka upplifun og hefur nú jafnframt sýnt fram á það að vera óhrætt við að taka ný skref og fara út fyrir þæginda rammann.