*

Bílar 26. desember 2019

Bronco goðsögnin snýr aftur

Það styttist óðum í nýjan Ford Bronco jeppa sem koma mun á markað aftur á næsta ári eftir rúmlega tveggja áratuga hlé.

Róbert Róbertsson

Það vakti óneitanlega mikla athygli þegar Ford tilkynnti um endurkomu Bronco á bílasýningunni í Detroit 2017. Framleiðslu á Bronco hafði verið hætt árið 1996. Bronco var fyrsti jeppi bílaframleiðandans Ford og kom fyrst á götuna árið 1966. Fram til ársins 1977 var hann framleiddur sem meðalstór jeppi án verulegra breytinga á útliti. Nýi jeppinn þykir að mörgu leyti sækja útlitið til upprunalega Bronco jeppans af myndum að dæma.

Hrár og að mestu óinnréttaður

Fyrsta kynslóð Bronco jeppanna kom fram árið 1966 og sló strax í gegn á Íslandi sem og víðar annars staðar um heiminn.

Lee Iaccoca var á þeim tíma forstjóri Ford og þótti hugmyndaríkur maður. Honum og aðstoðarforstjóra Ford, Donald Frey, fannst bílaframleiðaslan í Detroit hafa staðnað og vildu koma fram með eitthvað nýtt. Fyrstu nýjungarnar sem þeir komu fram með voru einmitt hinn nú klassíski sportbíll Ford Mustang og svo jeppinn Ford Bronco. Ford lýsti yfir að hinn nýi Bronco skyldi vera jafnvígur í torfærum sem á hraðbrautum. Það verður að segjast eins og er að fyrsta kynslóð bæði Bronco jeppans og Mustang sportbílsins eru að flestra mati taldar þær merkustu og best heppnuðu.

Fyrsti Bronco jeppinn var mjög hrár og raunar bara fjögurra sæta en að öðru leyti að mestu óinnréttaður. Margir sem eignuðust Bronco breyttu jeppunum fljótlega í lúxusjeppa þess tíma með því að innrétta þá smekklega, hita- og hljóðeinangra og setja rúmgott aftursæti í þá fyrir þrjá. Margir eigendur bættu líka aksturseiginleika jeppanna á frekar einfaldan og lógískan hátt með því að taka fáein blöð úr afturfjöðrunum og setja öflugri tvívirka dempara við öll fjögur hjólin. Þessi einfalda aðgerð breytti talsvert miklu. Bílarnir urðu fyrir vikið þónokkuð þýðari og stöðugri í akstri.

Fimm kynslóðir á þremur áratugum

Fyrsta kynslóð Ford Bronco lifði í ellefu ár til ársins 1977 en þá tók nýr og mun stærri Bronco við. Bæði fyrsti Mustanginn og Bronco voru tímamótabílar á sinn hátt. Báðir voru hannaðir frá grunni og áttu raunar lítið sameiginlegt með öðrum bílum Ford á þessum tíma. Aðeins vélar, gírkassar og drif áttu sér samsvaranir í öðrum Ford bílum þessa tíma.

Alls komu fimm kynslóðir Ford Bronco á markað á þremur áratugum en framleiðslu á jeppanum var hætt árið 1996. Ford Bronco var mjög vinsæll jeppi á Íslandi í þrjá áratugi og rúmlega það og enn sjást nokkrir gamlir Bronco jeppar á götunum. Sérstakur Bronco klúbbur er starfræktur hér á landi og Facebook-síðu er haldið úti þar sem unnendur Bronco spjalla saman og skiptast á fréttum og myndum af Bronco. Jeppinn goðsagnakenndi er auðvitað frægur um heim allan. Bronco var m.a. notaður til löggæslustarfa allvíða, m.a. á Íslandi á sjöunda og áttunda áratugnum. Fyrsta kynslóð Bronco er dýrmætur safngripur og selst fyrir háar fjárhæðir í dag.

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kemur út 30. desember. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér.

Stikkorð: Ford  • Bronco