*

Sport & peningar 30. janúar 2013

Brøndby getur ekki greitt leikmönnum

Framkvæmdastjóri danska knattspyrnuliðsins vill ekki ábyrgjast launin.

Gengi hlutabréfa danska knattspyrnuliðsins Brøndby hrundi um 28% í kauphöllinni í Kaupmannahöfn í morgun eftir að stjórnendur félagsins sögðu stöðu félagsins það slæma að þeir gætu ekki ábyrgst að leikmenn liiðsins fái útborgað um mánaðamótin.

Hlutabréf félagsins voru skráð á markað fyrir sléttum fimm árum og stóð gengi bréfa Brøndby þá í 60 dönskum krónum á hlut. Það stendur nú í 11,8 dönskum krónum á hlut og hefur aldrei verið lægra. 

Danska dagblaðið Börsen fjallar um bága fjárhagsstöðu Brøndby í dag og rifjar m.a. upp að fjárþurrð sé ekki ný af nálinni í rekstrarsögu félagsins. Þar er m.a. haft eftir Tommy Sommer Håkansson, framkvæmdastjóra félagsins, að málið hafi strandað á viðræðum við danska knattspyrnusambandið um orlofsgreiðslur.

Þetta er ekki fyrsta skiptið sem félagið lendir í vanda vegna þessa en það tapaði máli gegn leikmönnum félagsins vegna málsins fyrir nokkrum misserum síðan og var það dæmt til að inna af hendi orlofsgreiðslu nokkur ár aftur í tímann.

Stikkorð: Bröndby