*

Menning & listir 4. júní 2016

Brot af stærri heild

Á dögunum var opnuð sýning í Ásmundarsafni þar sem verkum Elínar Hansdóttur er teflt saman við verk Ásmundar Sveinssonar.

Kári Finnsson

S ýningin „Uppbrot“ var opnuð nýverið í Ásmundarsafni þar sem myndlistarmaðurinn Elín Hansdóttir rýnir í verk myndhöggvarans Ásmundar Sveinssonar. Líkt og flestir vita er safnið til húsa í byggingu sem eitt sinn var heimili og vinnustofa listamannsins.

Þar eru alltaf til sýnis verk eftir Ásmund en stundum er öðrum listamönnum boðið að sýna eigin verk samhliða hans verkum. Sýningarstjóranum, Dorothée Kirch, var boðið að koma með tillögu að sýningu fyrir safnið og úr varð að hún lagði til að vinna með Elínu. Hún býr og starfar bæði í Reykjavík og í Berlín og er fædd 1980, tveimur árum áður en Ásmundur deyr.

Að sögn Elínar þótti Dorothée áhugavert að hafa sýningu gamals og ungs listamanns en tæp hundrað ár eru á milli listamannanna í aldri. Elín er einna þekktust fyrir metnaðarfull rýmisverk sín og var hugmyndin frá upphafi að nota Ásmundarsafnið sjálft sem útigangspunkt fyrir sýninguna.

Forréttindi að grúska í safneigninni

Spurð að því hvort hún hafi þekkt vel til verka Ásmundar áður en hóf vinnu við sýninguna viðurkennir Elín að svo hafi ekki verið. „Ég þekkti vissulega Ásmund, þessa byggingu og hans þekktustu verk,“ segir hún. „En það voru algjör forréttindi að fá að grúska í safneigninni. Þannig fékk ég aðgang að t.d. teikningum eftir hann sem hafa ekki mikið sést.“ Hún bendir á litla teikningu í „skemmunni“, bogadregnum sal innst í safninu. „Það hefur enginn séð þessa teikningu áður,“ segir Elín.

„Það er líka ástæða fyrir því. Þetta er rifa af stærri teikningu eða skissu eftir Ásmund. Þetta er eitthvað sem safnið verður að geyma þrátt fyrir að ekki sé vitað nákvæmlega hvaðan það kemur. Við vorum algjörlega dolfallnar yfir þessu verki og fannst það vera ágætis útigangspunktur fyrir alla sýninguna. Það sem okkur fannst aðlaðandi við verkið er að þetta er brot af stærri heild sem maður veit ekki alveg hver er.“

Stikkorð: Myndlist  • List  • Ásmundur Sveinsson  • Elín Hansen