*

Veiði 13. júní 2014

Brúðkaupsferð í Haukadalsá

Eftir að Dögg Hjaltalín fékk maríulaxinn í Haukadalsá var gengið frá brúðkaupsferðinni á staðnum.

Tilvonandi brúðhjón ætla að skella sér í laxveiði strax eftir giftingu. Dögg Hjaltalín, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka og Ólafur Finnbogason, fasteignasali á Mikluborg, munu gifta sig eftir níu daga. „Við giftum okkur þann 21. júní á sumarsólstöðum í bragganum á Hólmavík en við höfum verið trúlofuð í rúmlega tvö ár,“ segir Dögg. „Við förum í brúðkaupsferð í Haukadalsá en ég vil meina að það hafi verið sameiginleg ákvörðun enda maðurinn minn tilvonandi með veiðidellu á mjög háu stigi. Ætli lykillinn að farsælu hjónabandi sé ekki að taka þátt í þessu með honum?

 „Við vorum í Haukadalsánni á svipuðum tíma í fyrra en þá var það í fluguveiðiskóla sem Óli hefur stýrt undanfarin ár en hann hefur verið leiðsögumaður í mörg ár, aðallega í Langá en einnig í Kjarrá, Norðurá, Laxá í Kjós, Laxá í Aðaldalnum og Hítará.“

 „Við ákváðum í framhaldi af vel heppnaðri veiðiferð í Haukdalsána að koma aftur að ári og því lá það mjög vel við að fara í brúðkaupsferðina þangað þar sem við erum að gifta okkur í upphafi veiðitímabilsins og Óli oftast mjög spenntur á þessum tíma.“

Dögg segist hafa heillast af Haukadalsánni enda sé náttúrufegurðin þar gríðarleg og ekki sé verra að mjög gaman sé að veiða í ánni. „Ekki skemmdi fyrir að við fengum mjög góðar móttökur hjá staðarhöldurum og allur aðbúnaður til fyrirmyndar. Einnig er frábær gleðistundarstaður rétt við veiðihúsið og það er algjör skyldumæting þegar veigarnar eru bornar fram við bakkann.“

Nánar má lesa um málið í Veiðiblaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu 12. júní.