*

Matur og vín 5. nóvember 2017

Brunch-inn búinn að festa sig í sessi

Út í bláinn er nýr veitingastaður á efstu hæðinni í Perlunni.

Kolbrún Pálína Helgadótt

Út í bláinn er bistró stemning þar sem áhersla er lögð á einfaldleika, árstíðabundin hráefni og íslenska matarhefð.

Brunch-seðill Út í bláinn hefur vakið athygli en seðillinn er þess eðlis að fólk getur deilt með sér réttum. Atli Þór Erlendsson, yfirmatreiðslumaður staðarins, segir það svipað og þegar fólk situr til borðs heima hjá sér. „Hann er borinn fram fyrir allt borðið svo að allir ættu að finna eitthvað sem þeim finnst gott. Ef einhverjum finnst eitthvað sérstaklega gott eins og pönnukökurnar, auka avakadó eða grísasíða þá er auðvitað ekkert mál að panta aukalega af því. Við erum sérstaklega stolt af grísasíðunni okkar sem er elduð við vægan hita í 15 klukkutíma og velt upp úr sérlagaðri kaffi-BBQ sósu. Við bjóðum líka upp á sérstakan vegan brunch seðil.“ Atli segir viðtökurnar hafa verið mjög góðar fram að þessu og að fjölskyldur og vinahópar hafa tekið brunchinum fagnandi, „Við höfum fundið fyrir mikilli ánægju  með að brunch-seðillinn sé í boði frá hálf tólf til fjögu á daginn. Það nenna ekki allir út í hádeginu um helgar en vilja þó kannski gæða sér á góðum og matarmiklum brunch þó að liðið sé eitthvað á daginn.“ Spurður hvort hann telji brunch-menninguna hafa aukist hér á landi segir hann hann brunch-inn svo sannarlega búinn að festa sig í sessi.

 

Aðsókn Íslendinga komið á óvart

Atli segir góða blöndu af ferðamönnum sem og heimamönnum sækja staðinn. „Ferðamennirnir koma við hjá okkur, bæði þeir sem hafa heyrt af okkur og síðan þeir sem heimsækja þetta frábæra hús sem Perlan er. Aðsókn Íslendinga hefur í raun komið okkur mest á óvart og verið framar vonum og eru þeir í raun í meirihluta þeirra sem sækja Út í bláinn og Kaffitár hér á efstu hæðinni. Kaffihúsið er vinsæll samkomustaður fyrir hópa sem hittast reglulega eins og til dæmis gamlir skóla- eða vinnufélagar því hér er nóg pláss og nóg af bílastæðum.“ Atli bendir einnig á að staðurinn sé einkar fjölskylduvænn þar sem sérstaklega sé hugsað vel um litla fólkið með sérmatseðli, stólum, föndri, leikföngum og þess háttar.

 

Gamla uppáhellingin vinsælust

Eru einhverjir nýir straumar í kaffimenningunni eða nýir kaffidrykkir sem eru vinsælli en aðrir um þessar mundir? „Slow brew eða hæg uppáhelling hefur verið að sækja í sig veðrið síðustu ár og á Kaffitári í Perlunni erum við með nýjustu tækni í þessari tegund uppáhellingu. Þetta er í raun gamla uppáhellingin tekin upp á nýtt stig og geta gestir okkar valið um kaffi. Vinsælast er að vera með góða „single orgin“ eins og Gvatemala eða jafnvel Keníu kaffi.“  Þrátt fyrir að kaffihús Kaffitárs standi á efstu hæð Perlunnar  segir Atli það vel sótt af fólki í nágrenninu og þeim sem vilji brjóta aðeins upp daginn. „Við finnum að fólki finnst gott að kíkja til okkar, taka stutta viðskiptafundi, kíkja í námsbækur eða einfaldlega njóta útsýnisins á góðviðrisdögum. Þá eru ísunnendur að uppgötva Krakatá ísinn okkar sem er gerður úr Krakatá expressóblöndu og svo er hægt að fá mögulega besta Affogato landsins hjá okkur.“

 

Alltaf gott veður á efstu hæðinni

Að lokum er ekki hægt annað en að forvitnast hvernig tilfinning það sé að bera fram mat við svona einstakt útsýni. „Það er náttúrulega engu líkt og sannkölluð forréttindi að fá að starfa í þessu umhverfi. Gestirnir okkar fá að upplifa Reykjavík á allt annan hátt en annars staðar í borginni og skiptir þá engu máli hvernig viðrar. Hér á efstu hæðinni er alltaf gott veður.“

Pönnsur að hætti kokksins

1 bolli hveiti

1 egg

1 bolli mjólk

2 msk olía

1 msk sykur

1 og ½ tsk lyftiduft

1 tsk matarsódi

1 tsk bourbon vanilla, eða 1 stk vanillustöng  

Hrærið saman egg og sykur, bætið saman við mjólkinni og vinnið þurrefnin loks útí.