*

Matur og vín 2. apríl 2013

Bryggjan opnar í elsta húsinu á Oddeyri

Veitingastaðurinn Bryggjan á Akureyri flytur úr Skipagötu og opnar á Oddeyri. Nýjungar á matseðli sem ekki hafa sést áður í bænum.

Lára Björg Björnsdóttir

„Við opnuðum á föstudaginn daginn langa og erum í skýjunum yfir móttökunum,“ segir Heba Finnsdóttir, einn eigenda veitingastaðarins Bryggjunnar.

Veitingastaðurinn sem var áður til húsa í Skipagötu 12 er nú fluttur í gömlu Gránufélagshúsin. Elsti hlutinn er síðan 1873: „Við byggjum á góðum grunni. Við leggjum áherslu á fjölskyldufólk, ferðamenn og alla Akureyringa. Við höldum áfram að bjóða upp á okkar eldbökuðu pizzur en við erum líka með nýjungar á matseðlinum sem ég fullyrði að hafa ekki áður sést hér á Akureyri eins og svínarif elduð í sólarhring og svínasíðusalat," segir Heba. 

Bryggjan ætlar að auki að heiðra þekkta Akureyringa með því að tileinka þeim stól á staðnum. Þeir sem eru nú þegar komnir með stól eru til dæmis Aron Einar Gunnarsson knattspyrnumaður , Margrét Blöndal fjölmiðlakona og Kristján Jóhannsson stórtenór. 

Strandagata 49 á sér viðamikla og merkilega sögu. Húsið er rótgróinn hluti af sögu Akureyrarbæjar, þar sem það hefur staðið í 140 ár og er það því elsta húsið sem stendur á Oddeyri. Húsið var lengst af iðnaðar- og verslunarhúsnæði allt frá því að forvígismenn Gránufélagsins, Tryggvi Gunnarsson og sr. Arnljótur Ólafsson keyptu það.

Gránufélagið var afar umsvifamikið í áratugi en halla tók undan fæti upp úr aldamótunum 1900 og komst það þá í eigu Hinna sameinuðu íslensku verslana, sem héldu skrifstofur sínar í þessu húsi allt til ársins 1926. Við tók þá Vélsmiðjan Oddi en hún var starfræk þar til ársins 1992 og var þá húsið orðið gjörbreytt að innan.

Stikkorð: Akureyri  • Gránufélagið