*

Sport & peningar 20. ágúst 2013

Búast við mikilli eftirspurn eftir miðum á HM 2014

Miðar á HM í Brasilíu á næsta ári kosta allt upp undir 120 þúsund krónur.

Sala hófst í dag á miðum á heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem haldið verður í Brasilíu á næsta ári. Hægt er að panta miðana á vef Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA). 

Breska ríkisútvarpið (BBC) segir að hjá FIFA sé búist við því að eftirspurnin verði álíka mikið og á HM í Þýskalandi árið 2006 þegar sjö voru um hvern miða. Um 3,3 milljónir miða verða í boði og kosta þeir frá 90 dölum til 990 dala, þ.e. frá tæpum 11 þúsund krónum til tæpra 120 þúsund króna. Dýrasti miðinn er á lokaleikinn á Maracana-leikvanginum í Rio de Janeiro.

Dregið verður úr seldum miðum 10. október næstkomandi og verða þeir sem út af standa - ef einhverjir eru - settir í sölu 5. nóvember næstkomandi. Í desember verður svo dregið um það hverjir fái miðana. 

Stikkorð: HM 2014