*

Menning & listir 21. ágúst 2012

Bubbi búinn að kaupa lögin sín til baka

Bubbi Morthens fær nú greidd höfundarlaun af lögum sínum í eigin vasa í stað þess að greiða þau til Straums.

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens hefur keypt höfundarrétt af lögum sínum til baka frá Straumi.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld þar sem fjallað var um eign Straums á höfundarréttum þekktra íslenskra tónlistarmanna.

Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um málið í janúar 2010. Þar kom fram að Straumur fjárfestingarbanki myndi taka yfir Hugverkasjóð Íslands sem hafði yfirráð yfir höfundarétti á hugverkum tíu þekktra íslenskra tónlistarmanna.

Forsaga málsins er í stuttu máli sú að á árunum 2005-2006 seldu tíu þekktir tónlistarmenn hugverkaréttindi sín til Hugverkasjóðs Íslands, sem þá var í eigu Baugs Group. Viðskiptin fóru þannig fram að tónlistarmennirnir gáfu út skuldabréf sem Hugverkasjóðurinn keypti og fengu töluvert af fjármagni greitt út í aðra hönd. Stefgjöld framtíðarinnar áttu síðan að greiða upp skuldabréfin og vexti.

Til einföldunar má í raun segja að tónlistarmennirnir hafi fengið stefgjöld næstu ára greidd fyrirfram. Tónlistarmennirnir fengu allt frá rúmum sex milljónum til 36 milljóna króna greiddar á einu bretti sem greiðast átti sem fyrr segir til baka með höfundarréttargreiðslum. Tónlistarmennirnir tíu eru Bubbi Morthens, Gunnar Þórðarson, Stefán Hilmarsson, Guðmundur Jónsson, Jón Ólafsson, Valgeir Guðjónsson, Egill Ólafsson, Eyþór Gunnarsson, Jakob Frímann Magnússon og Helgi Björnsson.

Eignir Hugverkasjóðsins enduðu að lokum hjá Straumi eftir hrun bankanna og gjaldþrot Baugs í byrjun árs 2009. Hugverkasjóðurinn rann undir Stoðir Invest, dótturfélag Baugs. Straumur Fjárfestingarbanki eignaðist síðan bréfin vegna kröfu á hendur Stoðum Invest. 

Í fyrrnefndri umfjöllun Viðskiptablaðsins í janúar 2010 kom fram að Bubbi hygðist kaupa réttindin af lögum sínum til baka, sem hann hefur nú gert skv. frétt Stöðvar 2 í kvöld. Samningurinn við Bubba var undirritaður í júní árið 2006. Baugur, í gegnum Hugverkasjóðinn, keypti þá hugverk eða höfundarrétt af lögum Bubba en hann hafði í byrjun árs 2005 selt hann til Sjóvá almennra. Baugur keypti því réttinn í raun af Sjóvá.

Leiðrétting:

Tónlistar- og söngkonan Ragnhildur Gísladóttir var í fyrri gerð fréttarinnar sögð hafa selt höfundarrétt sinn til Hugverkasjóðsins. Það er ekki rétt og er beðist velvirðingar á mistökunum.