*

Menning & listir 22. ágúst 2012

Bubbi Morthens: Katalógurinn minn er gríðarlega sterkur

Bubbi Morthens segist hafa verið farinn að örvænta þar sem höfundarréttuinn að lögum hans var í höndum annarra.

„Lögin eru það mikið spiluð að ég hafði efni á að kaupa þetta til baka,“ segir Bubbi Morthens sem nú er farinn að fá greidd höfundarlaun af lögum sínum. Um eitt og hálft ár er liðið síðan hann samdi við Straum um kaup á höfundarréttinum að lögum sínum. Hann segist í samtali við vb.is hafa verið farinn að hafa áhyggjur af því að vita af höfundarrétti laga sinna í höndum annarra. 

Bubbi vill ekki segja á hvað hann keypti höfundarrétt sinn að eigin lögum til baka en telur verðmæti lagasafnsins nema hundruð milljónum króna. Hann stofnaði samlagsfélag utan um höfundarréttinn ásamt konu sinni fyrir tveimur árum og á hvort þeirra jafnan hlut.

„Ég var farinn að örvænta að einhver kæmist yfir þetta og reyna að gera eitthvað sem ég væri ekki sáttur við. Þegar ég sá hvað stóð út af borðinu fór ég á fund með mínu fólki. Niðurstaðan var sú að það myndi borga sig að ég keypti réttinn og eignaðist hann aftur. Ég hefði aldrei haft burði til þess nema vegna þess að lögin mín eru arðbærari en ég hélt í upphafi.“ 

Bubbi seldi eins og kunnugt er tryggingafélaginu Sjóvá réttinn að lögum sínum í byrjun árs 2005. Hugverkasjóðurinn Íslands, sem þá var í eigu Baugs Group, keypti síðar réttinn af Sjóvá. Í Hugverkasjóðnum voru auk þess hugverkaréttindi níu annarra tónlistarmanna. Þeir voru Gunnar Þórðarson, Stefán Hilmarsson, Guðmundur Jónsson, Jón Ólafsson, Valgeir Guðjónsson, Egill Ólafsson, Eyþór Gunnarsson, Jakob Frímann Magnússon og Helgi Björnsson.

Salan á hugverkunum fór þannig fram að tónlistarmennirnir gáfu út skuldabréf sem sjóðurinn keypti og fengu tónlistarmennirnir á bilinu sex til 36 milljónir fyrir. Stefgjöld framtíðarinnar af lögum tónlistarmannanna áttu að greiða upp skuldabréfin og vexti.

„Katalógurinn minn er gríðarlega sterkur og hefur skilað hellings arði svo þetta gekk upp. Hefði ég látið þetta malla þá hefði þetta verið á áætlun. En úr því þetta var komið í þennan farveg þá taldi ég best að kaupa réttinn til baka. Þetta var ekki svo stór upphæð,“ segir Bubbi.

Leiðrétting:

Tónlistar- og söngkonan Ragnhildur Gísladóttir var í fyrri gerð fréttarinnar sögð hafa selt höfundarrétt sinn til Hugverkasjóðsins. Það mun ekki rétt og er beðist velvirðingar á mistökunum.

Stikkorð: Bubbi Morthens