*

Veiði 1. júní 2015

Bubbi og Björgvin Halldórsson opna Norðurá

Ráðherrunum Bjarna Benediktssyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni ekki boðið að opna Norðurá í Borgarfirði eins og í fyrra.

Trausti Hafliðason

Laxveiðin hefst formlega á föstudaginn þegar veiði hefst í Blöndu, Straumunum í Borgarfirði og Norðurá. Í gegnum árin hefur fjölmiðlum verið boðið að vera viðstaddir opnun Norðurár og þannig verður það líka núna.

Í áratugi var það stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur sem opnaði ána enda var félagið með hana á leigu í tæp 70 ár eða allt þar til í fyrra. Þá fengu Norðurárbændur Einar Sigfússon, sem oft er kenndur við Haffjarðará, til liðs við sig. Í fyrra bauð hann Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra að opna ána. Óhætt er að segja að það hafi vakið mikla athygli og var sú ákvörðun ráðherranna að þiggja boðið gagnrýnd víða.

„Það verða ekki ráðherrarnir sem opna ána að þessu sinni," segir Einar í samtali við Viðskiptablaðið. „Því miður þá komust skilaboðin mín ekki til skila í fyrra. Mér hefur fundist þessi grein hafa átt undir högg að sækja og eftir hrun er eins og menn eða fyrirtæki þori ekki að bjóða í laxveiði. Ég vil meina að laxveiðin sé eitthvað það stórkostlegasta sem við eigum í okkar landi. Þess utan er þetta mikilvæg atvinnugrein sem skiptir bændur og búalið í þessu landi miklu máli. Ég vildi koma þessu til skila í fyrra en það tókst ekki, því miður.

Ég bauð Bubba Morthens og Björgvini Halldórssyni að koma. Þeir eru báðir vanir veiðimenn og það verður skemmtilegt að hafa þá þarna með okkur. Við borðum fyrst saman morgunverð í veiðihúsinu og förum síðan að veiða klukkan 7. Þeir verða með okkur á föstudeginum."

Nánar verður fjallað um upphaf laxveiðitímabilsins í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn.