*

Veiði 15. júní 2014

Buðum eins hátt og við þorðum

Ingólfur Ásgeirsson, einn af leigutökum Þverár og Kjarrár, fæddist inn í mikla veiðifjölskyldu.

Ingólfur Ásgeirsson er fæddur í Reykjavík árið 1966. Hann bjó í Vesturbænum allt þar til hann hóf barnaskólagöngu en þá flutti fjölskyldan í Fossvoginn þar sem hann ólst upp til menntaskólaaldurs. „Fossvogurinn er frábær staður fyrir börn og ekki skemmir að í næsta nágrenni er ein af betri laxveiðiám landsins en þar var ég að sniglast öllum stundum,“ segir Ingólfur. „Þetta byrjaði allt við Elliðaárnar. Ætli ég hafi ekki verið fjögurra eða fimm ára gamall þegar ég fór þangað fyrst að veiða með pabba. Það var vel við hæfi enda hafa forfeður mínir verið miklir veiðimenn.“

Þverárútboðið fræga

Í september árið 2011 var auglýst útboð Þverár og Kjarrár í Borgarfirði. „Ég man að ég var staddur í Hofsá þegar þetta gerðist. Ég kom inn í veiðihús í hádeginu og fór inn á angling.is og þá sé ég þetta fyrst. Ég hugsaði með sjálfum mér að þetta væri kannski tækifærið. Ég hringdi í Davíð Másson og við ákváðum að nálgast útboðsgögnin. Við fengum okkur kaffibolla saman og fórum yfir gögnin. Að því loknu heyrðum við í Halldóri Hafsteinssyni og lögðumst betur yfir þetta með honum. Við vildum bjóða með þá von í brjósti að geta hreppt hnossið. Maður verður að bíða eftir rétta tækifærinu. Það eru fáar ár í þessum gæðaflokki, sem fara í útboð og það líður oft langt á milli.“

Sáu tækifæri í veikri krónu

Utan um rekstur Þverár/Kjarrár var stofnað félagið Starir ehf. en félagið er í eigu Ingólfs, Davíðs og Halldórs, sem starfa báðir í flugrekstri og ferðaþjónustu. Töluverðar umræður urðu um þetta útboð og vildu margir meina að þeir félagar hefðu boðið of hátt verð eða 111,7 milljónir króna á ári í fimm ár. Var jafnvel talað um að þeir hefðu með boði sínu varpað sprengju inn á laxveiðimarkaðinn, sem hafði dregist mjög saman eftir hrun.

„Ég er búinn að vera í þessumbransa frá barnæsku og vissi nákvæmlega að þetta myndi gerast. Hrunið var nýafstaðið og laxveiðimarkaðurinn var búinn að kælast mikið niður. Mörgum hefur þótt þetta djarft hjá okkur og það er ekkert við því að segja. Kannski er bara eðlilegt að það komi smá skjálfti í markaðinn þegar nýir menn koma inn á hann.“

Rætt er við Ingólf Ásgeirsson í Veiðiblaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu í vikunni. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.