*

Bílar 15. október 2017

Bugatti Chiron er draumabíllinn

Arnar segir að mamma hans sé besti bílstjórinn. Hún sé alltaf á löglegum hraða og hafi aldrei lent í tjóni.

Arnar Grant einkaþjálfari er mikill áhugamaður um bíla. Arnar rifjar upp bíltúr með Formúlu 3 kappaksturshetju í Austurríki sem tók vel á Audi A6 S Turbo. Draumabíll Arnars er Bugatti Chiron sem er gríðarlega aflmikill bíll.

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið? ,,BMW X6 með öflugri dísilvél og M sportpakka. Allar hreyfingar í bílnum eru mjög skemmtilegar og þægindin mikil. Hann er kraftmikill og ótrúlega lipur.“

Hver er eftirminnilegasta  bílferðin? ,,Ég fékk eitt sinn far heim úr ræktinni með Philip Sager Formúlu 3 ökumanni sem ég var að þjálfa meðan ég bjó í Austurríki. Hann var á breyttum Audi A6 S Turbo og auðvitað varð hann að sýna mér hvað í honum bjó. Honum fannst mjög mikilvægt að halda snúningshraðamælinum í botni, sérstaklega þegar hann skipti niður til að taka beygjur. Þetta var svakalegur akstur en hann hafði rosalegt vald á bílnum. Philip Sager er núna að keppa í Porsche Supercup sem er hluti af FIA Formula one World Championship.“

Hver er besti bílstjóri sem þú þekkir (fyrir utan sjálfa þig)? ,,Mamma mín, Arndís Sigurpálsdóttir, er besti bílstjóri sem ég þekki. Hún keyrir alltaf á löglegum hraða og hefur aldrei lent í tjóni. Hún hefur ekki einu sinni fengið stöðumælasekt.“

En versti bílstjórinn? ,,Það eru margir slæmir bílstjórar á Íslandi. Sérstaklega þeir sem keyra rólega á vinstri akrein og hleypa engum framúr.“

Hvað hlustarðu helst á í bílnum? ,,Ég hlusta mest á útvarpið en stundum spila ég einhvern góðan playlista af Spotify.“
Hvort myndirðu vilja keppa í kappakstri eða torfæru? ,,Ég myndi vilja keppa í kappakstri. Þá helst FIA World Endurance Championship.“

Hver er draumabíllinn? ,,Bugatti Chiron 2017 árgerð. Þetta er ótrúlegur bíll sem fer úr 0-400 km hraða á aðeins 42 sekúndum. Sem er heimsmet miðað við götubíl.“

Rætt er við Arnar í blaði Viðskiptablaðsins, Bílar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.