*

Menning & listir 11. janúar 2014

Búin að selja yfir milljón plötur

Of Monsters and Men fylgja í fótspor Bjarkar og fá platínuplötu í Bandaríkjunum.

Íslenska hljómsveitin Of Monsters and Men hefur selt yfir milljón plötur í Bandaríkjunum og fær því platínuplötu þar í landi. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Þetta er í annað skiptið þar sem íslenskt tónlistarfólk fær platínuplötu í Bandaríkjunum en hingað til er það bara Björk sem hefur náð platínusölu þar í landi.

Þessi mikla plötusala Of Monsters and Men hefur átt sér stað á tiltölulega skömmum tíma eða frá því að platan kom út í apríl 2012. Platan hefur víða selst vel og hefur sveitin náð platínusölu í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi. Sveitin hefur fengið tvöfalda platínuplötu á Írlandi og í Kanada.