*

Veiði 26. mars 2015

Búinn að bíða í áratugi eftir hugmyndum Landsvirkjunar

Hátíð fluguveiðimanna fer fram í Háskólabíói í dag þar sem meðal annars verður boðið upp á málstofu um stangaveiði og náttúruvernd.

Trausti Hafliðason

Nú þegar aðeins örfáir dagar eru í að stangaveiðitímabilið hefjist geta áhugamenn um veiði tekið forskot á sæluna því í Háskólabíói í dag fer fram sannkölluð hátíð fluguveiðimanna.  

Eins og margir veiðimenn vita þá verður alþjóðlega fluguveiði-kvikmyndahátíðin RISE haldin í fimmta sinn klukkan 20 í kvöld.  Áður en sýningar hefjast verður veiðisýning í anddyri Háskólabíós og hefst hún klukkan 18. Enn fyrr eða klukkan 17 verður stutt málstofa um stangaveiði og umhverfisvernd.

Málstofan er haldin á vegum Continental Trout Conservation Fund (CTCF) og verður Össur Skarphéðinsson, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, umræðustjóri. Helgi Guðbrandsson er formaður Íslandsdeildar CTCF, og verða samtökin kynnt stuttlega á málstofunni.

„Stangaveiðimenn þurfa vettvang þar sem veiðimenn úr öllum félögum geta komið saman og rætt hvernig best er að umgangast auðlindina og þetta er kjörið tækifæri til þess,“ segir Helgi.

Í málstofunni mun Sveinn Kári Valdimarsson, líffræðingur hjá Landsvirkjun, meðal annars kynna aðgerðir Landsvirkjunar varðandi verndun Þingvallaurriðans, og væntanlega reifa hugmyndir fyrirtækisins um fiskveg í Efra-Sog.

Jóhannes Sturlaugsson, hjá Laxfiskum ehf., mun fjalla um Þingvallaurriðann og hvernig má stuðla að uppgangi hans með hóflegri umgengni en hann hefur rannsakað urriðann um langt skeið.

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar, mun fjalla um efnahagslegt og samfélagslegt gildi stangveiða, og Valgarður Ragnarsson reifa reynsluna af veiða-og-sleppa í Húseyjarkvísl.

Össur segist vera búinn að bíða í áratugi eftir Landsvirkjun kynni loks hugmyndir sínar um fiskveg milli Þingvallavatns og Efra-Sogs. „Ég bíð spenntur eftir að heyra Svein Kára tala um aðgerðir hennar til að endurreisa ísaldarurriðann,“ segir Össur.

Í lok málstofunnar verður opnað fyrir umræður og fyrirspurnir.

 

Stikkorð: stangveiði  • fluguveiði  • RISE