*

Matur og vín 18. mars 2014

Búllan: Hágæða búlla

Eftir vinnu kíkti á nokkra skyndibitastaði í borginni.

Lára Björg Björnsdóttir

Matarrýnir Eftir vinnu fór í heimsókn á Búlluna.

Maturinn: Það er alltaf hægt að treysta á búlluborgara upp á gæði og ferskleika. Borgarinn er búinn til úr hágæðakjöti og ofan á honum er iceberg salatblað, tómatsneið, saxaður laukur, tómatsósa, sinnep og mæjónes. Blandan er frábær og gengur fullkomlega upp. Laukurinn er ferskur og brauðið er sérstaklega bragðgott og alltaf mjúkt og nýtt. Frönsku kartöflurnar eru vel heppnaðar. Þær eru mjóar og léttar og auðvelt að borða mikið af þeim. Þess vegna er oft nauðsynlegt að kaupa stærri skammt af frönskum með hamborgara ef matarlystin er góð því minnsti skammturinn er heldur lítill.

Þjónustan: Hér er aðeins fjallað um Búlluna á Geirsgötu því hún hefur oftast verið heimsótt. Og þar er gaman. Stemningin er skemmtileg og andinn góður. Þó að staðurinn sé lítill og oft yfirfullur af fólki þá er eins og kúnnar og afgreiðslufólk Búllunnar séu almennt frekar afslappað fólk sem nýtur þess að sitja við há barborðin og lesa gömul Séð og heyrt á meðan bílarnir þjóta framhjá og borgararnir eldast á risastóra grillinu. Þarna er enginn að flýta sér en afgreiðslan á frábærum mat sem klikkar aldrei tekur samt enga stund. Og því er ekki annað hægt en að gefa fullt hús stiga.

Nánar er fjallað um veitingastaðinn Búlluna, Aktu taktu, KFC og Subway í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út með Viðskiptablaðinu 6. mars. Þar er farið nákvæmlega yfir einstaka rétti og einnig fjallað um þjónustu á viðkomandi stöðum. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.

Stikkorð: Stuð  • Namm  • Búllan