*

Matur og vín 17. maí 2013

Bulsupartí og tónleikar fyrir 120.000 krónur

Svavar Pétur Eysteinsson hefur búið til nýja tegund grænmetispylsa og safnar nú fé til að koma þeim á markað.

Tónlistarmaðurinn og „bulsumeistarinn“ Svavar Pétur Eysteinsson safnar nú fé á íslensku hópfjármögnunarsíðunni karolinafund.com til að koma á koppinn nýrri tegund grænmetispylsa, sem hann kallar „bulsur“. Þegar hafa safnast 1.426 evrur af þeim 2.000 sem hann telur sig þurfa til.

Líkt og með safnanir á Kickstarter geta frumkvöðlar boðið þeim sem láta fé af hendi rakna ýmiss hlunnindi eða gjafir í þakkarskyni. Fyrir 1.550 krónur fær fólk áritað þakkarskjal og fyrir tvöfalda þá upphæð fæst skjalið með bulsupakka. Gjafmildustu bakhjarlarnir fá hins vegar stærri gjafir. Gefi einhver 60.000 krónur, eða 400 evrur, mætir bulsumeistarinn sjálfur til hins sama með nóg af bulsum handa tuttugu manns og grillar ofan í liðið. Bætist 60.000 krónur við þá upphæð heldur hljómsveitin Prins Póló tónleika fyrir bulsupartísgestina, en Svavar Pétur er forsprakki sveitarinnar.

Svavar Pétur lýsir á síðunni aðdraganda verkefnisins. Hann hafi ákveðið að hætta að borða kjöt á föstunni í fyrra. Nokkrum mánuðum seinna hafi hann dauðlangað í pylsu, en þá hafi góð ráð verið dýr. „Eftir nokkra umhugsun tók ég upp símann, hringdi í Matís og Nýsköpunarmiðstöð, og sagði þeim að mig langaði að búa til grænmetispulsu þar sem uppistaðan væri íslenskt hráefni. Til þess að gera langa sögu stutta kynnum við til sögunnar Bulsur úr íslensku bankabyggi og öðru gúmmulaði.“

Heimsækja má síðuna á karolinafund.com hér en þar má m.a. sjá kynningarmyndband fyrir bulsurnar.