*

Veiði 3. ágúst 2013

Búnar að toppa árið 2012

Sumar laxveiðiár toppa snemma sumars og aðrar þegar nær líður september. Nokkrar ár hafa þegar toppað lokatölur í fyrra.

„Þetta er búið að vera ótrúlegt í sumar og allt annað ástand á ánni,“ segir Jón G. Baldvinsson, formaður árnefndar Norðurár í Borgarfirði og leiðsögumaður við ána. „Það eru komnir um 2.500 fiskar á land og það ætti að byrja að veiðast vel aftur núna eftir að lítil ganga gekk upp ána.“

Norðurá er sú á sem hæst skorar séu lokatölur fyrir árið 2012 bornar saman við stöðuna 24. júlí síðastliðinn. Alls hafa veiðst 1.332 fleiri laxar í sumar miðað við allt árið í fyrra.

Miðað við stöðuna þann 24. júlí síðastliðinn hafði laxveiði í ellefu ám þegar farið fram úr heildarveiði í sömu ám í fyrra. Síðan þá hafa tvær ár bæst í hópinn. Efst á listanum trónir Norðurá, eins og áður segir, en það sem af er ári hafa 1.119 fleiri laxar veiðst í Þverá og Kjarará en í fyrra, Blanda hefur gefið 639 fleiri laxa það sem af er þessu ári og 222 fleiri laxar hafa veiðst í Flókadalsá í Borgarfirði en allt síðasta ár.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.

Stikkorð: Laxveiði